Blóðskilunarteymi SAk hlaut hvatningarverðlaunin 2019

Sólveig Tryggvadóttir og Steinborg Gísladóttir, hjúkrunarfræðingar á blóðskilun Sjúkrahússins á Akur…
Sólveig Tryggvadóttir og Steinborg Gísladóttir, hjúkrunarfræðingar á blóðskilun Sjúkrahússins á Akureyri, og Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri handlækningasviðs, sem afhenti hvatningarverðlaunin fyrir hönd framkvæmdastjórnar sjúkrahússins.

Blóðskilunarteymi Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) hlaut hvatningarverðlaun sjúkrahússins fyrir árið 2019 en verðlaunin voru afhent fimmtudaginn 17. september sl., skömmu áður en ársfundur sjúkrahússins hófst, en fundurinn var að þessu sinni haldinn sem fjarfundur til að gæta sóttvarna.

Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri hefur árlega frá 2011 veitt þeirri deild hvatningarverðlaun sem að mati framkvæmdastjórnar sýnir gott fordæmi um framsækni í störfum sínum eða skarar fram úr á annan hátt. Við veitingu hvatningarverðlaunanna er horft til ýmissa þátta sem hafa áhrif á starfsemi sjúkrahússins og gefur tilefni til jákvæðrar endurgjafar og eftirbreytni.

Vaxandi umfang þjónustunnar

Alice Harpa Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs Sjúkrahússins á Akureyri, upplýsti á ársfundinum hvaða eining hefði hlotið hvatningarverðlaunin en Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga, hafði áður afhent þau fyrir hönd framkvæmdastjórnar. Hún sagði að það væri sér mikil ánægja að fá að tilkynna að blóðskilunarteymi SAk hefði hlotið þennan mikla heiður í ár. „Í framtíðarsýn sjúkrahússins 2012-2017 var sett fram það metnaðarfulla markmið að koma upp blóðskilun hér við sjúkrahúsið. Markmið spretta upp af þörf, en eins og margir vita skiptir gríðarlegu máli að þessi þjónusta sé veitt í nærumhverfi þeirra sem hana þurfa.  Þetta markmið náðist 2015 í samvinnu við Landspítalann og hefur umfang þjónustunnar vaxið jafnt og þétt síðan. Við erum mjög stolt af því mikla og góða starfi sem þarna fer fram í dag en þjónustan skiptir sköpum fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra,“ sagði Alice Harpa.

Teymisvinna í hæsta gæðaflokki

Hún sagði það mat framkvæmdastjórnar sjúkrahússins að í blóðskilun ríki mikill faglegur metnaður, starfsfólkið hafi einstaklega jákvætt viðmót og sinni sjúklingum og fjölskyldum þeirra af mikilli alúð. „Þarna má sjá teymisvinnu í hæsta gæðaflokki, gæfuríkt samstarf heilbrigðisstofnana og bætta þjónustu við íbúa í nærumhverfi. Hvað viljum við meira? Blóðskilunarteymið er svo sannarlega vel að þessum verðlaunum komið og ég óska þeim og þeirra sjúklingum öllum til hamingju. Ég er viss um að þetta verður teyminu hvatning til áframhaldandi góðra verka,“ sagði Alice Harpa ennfremur við þetta tækifæri.  

 


Athugasemdir

Nýjast