Blíða í Baugaseli – torfbærinn sem lifnar við

Mæðgur við Baugasel. Frá vinstri Pálína Jóhannesdóttir og dætur hennar, þær Sigurborg Bjarnadóttir f…
Mæðgur við Baugasel. Frá vinstri Pálína Jóhannesdóttir og dætur hennar, þær Sigurborg Bjarnadóttir formaður Ferðafélagsins Hörgs og Sigríður Bjarnadóttir sem sæti á í stjórn félagsins.

„Það er líf og fjör í Baugaseli í sumar – bókstaflega! Gamli torfbærinn innst í Barkárdal hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár og nú blasir við ferðafólki endurnýjaður og glæsilegur minnisvarði um íslenska torfbæjamenningu, umvafinn kyrrð Tröllaskagans,“ segir Sigurborg Bjarnadóttir formaður Ferðafélagsins Hörgs í Hörgársveit.

Ferðafélagið Hörgur, sem sér um viðhald Baugasels, hefur staðið fyrir umfangsmiklum endurbótum á bænum með rausnarlegri styrkveitingu frá Húsafriðunarsjóði og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2024. Endurnýjun þaks og torfveggja, viðgerðir á tréverki og gluggum, og ný málning að utan gera bæinn að sannkölluðu augnayndi.

Frá bernsku bæjarins til vinsæls viðkomustaðar

Brynjar Hreinsson lét sitt ekki eftir liggja við endurbætur á Baugaseli.

Sigurborg segir að á bak við endurnýjað ytra byrði leynist djúp og merkileg saga. Torfbærinn Baugasel var síðast í byggð árið 1965, en saga hans nær mun lengra aftur. Síðustu ábúendur voru hjónin Friðfinnur Sigtryggsson og Una Zophoníasdóttir sem fluttu í Baugasel árið 1930 ásamt sjö sonum sínum. „Eftir að bærinn fór í eyði, tók Ferðafélagið Hörgur til hendinni og hóf árið 1981 að byggja upp gönguskála í tóftum gamla bæjarins – verkefni sem hefur staðið síðan með það að markmiði að vernda og viðhalda menningararfi svæðisins,“ segir hún.

Gistirými er nú fyrir fjóra í baðstofunni en pláss fyrir mun fleiri til að hvíla lúin bein og borða nesti í hlýlegu umhverfi. Gestabókin sýnir glögglega að bærinn er eftirsóttur viðkomustaður fyrir bæði innlenda og erlenda gesti – sumir koma gangandi, aðrir hjólandi, ríðandi eða jafnvel á vélsleðum yfir vetrartímann.

Gönguleiðir og náttúruupplifun

Baugasel liggur innst í Barkárdal, sem dregur sig vestur úr Hörgárdal inn í miðbik Tröllaskagans. Dalurinn er umlukinn háum fjöllum og er svo djúpur að frá byrjun október fram í mars sér ekki til sólar í bænum. Gönguleiðin að Baugaseli hefst við bæinn Bug í Hörgárdal og liggur um holt og mela, yfir brúaða Barká – alls um 7 km leið sem hentar flestum göngugörpum.

Tvær stuttar stikaðar gönguleiðir eru í boði frá Baugaseli: önnur liggur upp í Bæjarskálina fyrir ofan bæinn (gulur litur), en hin inn Barkárdalinn (rauður litur), sem hentar jafn vel hjólreiðafólki og göngufólki.

Framtíðaráform og félagsskapur með tilgang

Þau voru mörg handtökin og ófáar vinnustundir að baki hjá samhentum hópi Hörgsfélaga.

Sigurborg segir að áfram verði haldið með framkvæmdir og umbætur í Baugasel. Síðar í sumar stendur til að bæta aðstöðuna enn frekar með þurrsalerni, nýjum útiborðum og upplýsingaskiltum um sögu og náttúru svæðisins.

Að baki þessu góða verki stendur kraftmikil stjórn Ferðafélagsins Hörgs. Núverandi stjórn félagsins samanstendur af Sigurborgu Bjarnadóttur, Sigríði Bjarnadóttur, Brynhildi Bjarnadóttur og Gesti Haukssyni. Þær systur eru dætur Bjarna E. Guðleifssonar, sem var einn af stofnendum Ferðafélagsins Hörgs, og sannkallaður náttúruunnandi með djúpa rækt við svæðið. Arfleifð hans og eldmóður lifir áfram í starfi félagsins og sýn núverandi stjórnarmanna á verndun náttúru og menningarminja.

Ferðafélagið Hörgur telur nú um 50 virka félagsmenn og heldur úti fjölbreyttri göngudagskrá yfir sumarið. Á dagskránni eru bæði stuttar kvöldgöngur sem henta öllum, sem og lengri gönguferðir inn í fjöll og dali fyrir vant göngufólk. „Þetta er félag þar sem náttúruunnendur á öllum aldri geta notið samveru, hreyfingar og upplifunar í fallegu umhverfi,“ segir Sigurborg.

Gamli bærinn í Baugaseli hefur tekið stakkaskiptum í sumar eftir miklar endurbætur sem félagsmenn í Ferðafélaginu Hörg stóðu fyrir.

Það er tilvalið að gera sér ferð að Baugaseli – hvort sem er til að skoða endurbyggðan torfbæ, stíga í fótspor fyrrum íbúa eða njóta kyrrðar og náttúrufegurðar í hjarta Tröllaskagans.

Nýjast