Björninn hafði betur gegn SA Jötnum í kvöld

Björninn hafði betur gegn SA Jötnum, 6:5, er liðin mættust í kvöld í Skautahöll Akureyrar á Íslandsmóti karla í íshokkí. Leikurinn var gríðarlega jafn og skemmtilegur. Björninn hafði þó ávallt frumkvæðið en Jötnarnir jöfnuðu leikinn jafnóðum. Það voru hins vegar Bjarnarmenn sem skoruðu sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok og tryggðu sér stigin þrjú. Staðan á Íslandsmótinu er því þannig að SA Víkingar, SA Jötnar og Björninn hafa öll þrjú stig en SR er án stiga. Björninn og SA Jötnar hafa leikið tvo leiki en SR og Víkingar einn leik.

 

SA Jötnar byrjuðu leikinn vel og Josh Gribben skoraði fyrsta mark leiksins eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Bjarnarmenn jöfnuðu metin skömmu síðar og þar var að verki Daniel Vaiman. Staðan 1:1 eftir fimm mínútna leik og þannig stóðu leikar eftir fyrstu lotu.

Úlfur Andrésson kom gestunum yfir 2:1 með marki snemma í annarri lotu. Jötnarnir náðu að jafna metin um miðbik lotunnar og það gerði Sigurður Reynisson með skoti af stuttu færi. Staðan 2:2.

Björninn náði forystunni á nýjan leik þegar sjö mínútur voru til loka annarrar lotu. Jón Benedikt Gíslason fyrirliði Jötnana jafnaði metin fyrir heimamenn eftir glæsilegan sprett upp svellið og staðan 3:3. Sú staða endist ekki lengi því Björninn náði enn á ný að komast yfir með marki undir lokin. Áður en lotan var öll jöfnuðu Jötnarnir enn á ný metin og það gerði Orri Blöndal eftir fyrirgjöf frá Jóni Benedikt Gíslasyni. Flott sókn Jötnana og staðan jöfn, 4:4, fyrir þriðju og síðustu lotu.

Bjarnarmenn forystunni á nýjan leik þegar Matthías Sigurðsson kom gestunum yfir snemma í þriðju lotu. Jötnarnir voru ekki lengi að jafna metin og það gerði Björn Már Jakobsson og staðan 5:5 þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum og leikurinn stál í stál. Það var hins vegar Hjörtur Björnsson sem skoraði sigurmark leiksins fjórum mínútum fyrir leikslok.

 

Nýjast