Björgunarsveitir kallaðar út á sex stöðum í kvöld

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa verið kallaðar út á sex stöðum frá því um kvöldmatarleytið vegna óveðurs. Á Seyðisfirði, í Vestmannaeyjum, á Reyðarfirði þar sem þak losnaði, Egilsstöðum þar sem klæðning losnaði af gróðurhúsi og Húsavík, en björgunarsveitin þar sækir nú starfsmenn Orkuveitu er sitja fastir í snjó við Laxamýri.  

Einnig hafa björgunarsveitir í Reykjanesbæ og Sandgerði verið í viðbragðsstöðu í húsum sínum í kvöld að beiðni lögreglu. Rafmagn fór af stærstum hluta Þingeyjarsýslna upp úr klukkan 10 í kvöld. Ástæðan er sú að lína milli Akureyrar og Laxárvirkjunar slitnaði og í kjölfar slógu vélar Laxárvirkjunar út. Rafmagnslaust er á Húsavík, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn og á sveitabæjum í héraðinu.

Nýjast