Akureyri fer vel stað í N1-deild karla í handbolta en liðið lagði HK að velli 41:29 í kvöld í Digranesi í fyrstu umferð deildarinnar. HK byrjaði leikinn betur og komst í 3:0 en norðanmenn settu þá í fluggírinn og höfðu sjö marka forystu í hálfleik, 17:10, og unnu að lokum 12 marka sigur. Bjarni Fritzson fór á kostum í sínum fyrsta alvöru leik með Akureyri og skoraði 14 mörk. Guðmundur Hólmar Helgason skoraði sjö mörk og Oddur Gretarsson sex mörk. Þá varði Sveinbjörn Pétursson 20 skot á sínum gamla heimavelli.
Í liði HK var það Ólafur Bjarki Ragnarsson sem var markahæstur með 12 mörk og Björn Ingi Friðþjófsson varði 18 skot í marki HK-manna.
Akureyri er því komið með tvö stig í hús en næsti leikur norðanmanna er heimaleikur gegn Aftureldingu nk. fimmtudag.