Bingó til styrktar fjölskyldu Ólafs Karls Óskarssonar í HA

Bingó til styrktar fjölskyldu Ólafs Karls Óskarssonar verður haldið í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri, í nýbyggingunni á Sólborg, miðvikudagskvöldið 24. nóvember kl. 20.00. Margir veglegir vinningar eru í boði, auk þess sem söfnunarbaukur verður á staðnum. Ólafur Karl er tveggja ára Akureyringur, sem berst fyrir lífi sínu á Landspítalanum í Reykjavík.  

Hann fæddist með vacterl association sem eru margvíslegir fæðingargallar. Staðan hjá þessum litla dreng og fjölskyldu hans núna er sú að Ólafur Karl hefur verið á gjörgæsludeild Landspítalans í nokkrar vikur í öndunarvél. Á þeim tíma hefur hann gengist undir tvær aðgerðir, sem báðar auka verulega lífsmöguleika hans.

Síðustu fréttir voru jákvæðar, því fyrir helgina var hann tekinn úr öndunarvélinni, a.m.k. um tíma, þannig að vonandi eru bjartari tímar framundan. Fjölskyldan sér hins vegar fram á að þurfa að dvelja fjarri heimili sínu um jólin vegna veikinda Óla. En það er ekki bara röskun á daglegu lífi sem á sér stað í svona veikindum því þeir sem til þekkja vita að fjármálin geta reynst erfið þegar veikindi setja strik í reikninginn með tilheyrandi vinnutapi.

Það eru velunnarar Ólafs Karls, iðjuþjálfanemar á 2. ári við Háskólann á Akureyri, sem standa fyrir bingóinu. Undirbúningur  hefur staðið yfir í nokkurn tíma og hefur nemunum verið mjög vel tekið, bæði af fyrirtækjum og einstaklingum. Allur ágóði rennur til fjölskyldu Óla litla og þeir sem ekki komast á bingóið en vilja leggja málefninu lið geta lagt pening inn á sérstakan söfnunarreikning. Reikningsnúmerið er: 565-14-401412 og kennitalan 250867-2989.

Nýjast