Binda vonir við að skíðafólk leggi leið sína norður

"Við bindum töluverðar vonir við að skíðatíð verði mikil og góð hér í vetur og að fólk flykkist norður á skíði," segir Sigurbjörn Sveinsson hótelstjóri á Hótel KEA.  Undanfarna tvo mánuði hefur verið heldur rólegra yfir en vant er, fólk greinilega haldið að sér höndum á óvissutímum og ekki lagt upp í mikil ferðalög.   

"Það eru bara eðlileg viðbrögð," segir  Sigurbjörn.  Hann segir að stór hluti viðskiptamanna hótelsins sé fólk í viðskipta- eða vinnutengdum erindum, m.a. sölumenn af ýmsu tagi og þeir hafi minna verið á ferðinni liðnar vikur.  "Það hefur dregist nokkuð saman, en ég á allt eins von á að það lagist," segir Sigurbjörn. Hann telur enga ástæðu til að kvíða framtíðinni og telur allt eins líklegt að fólk muni sækja mikið norður til að stunda skíði í vetur.  Áður hafi t.d. höfuðborgarbúar í töluverðum mæli farið í skíðaferðir til útlanda en gera megi ráð fyrir í því árferði sem nú ríkir að úr slíkum ferðum dragi.  "Akureyri er útland númer tvö, fyrsti kosturinn þegar ferðir út fyrir landssteinana detta niður og við eigum von á að fólk skelli sér norður á skíði í staðinn og umferðin verði töluverð.  Við ætlum okkur að bretta upp ermar og vera bjartsýn, það þýðir ekki neitt annað."

Nýjast