Bílvelta á Miðhúsabraut

Ökumaður og tveir farþegar sluppu nær ómeiddir eftir bílveltu á Miðhúsabraut, skammt ofan við Skautahöllina á Akureyri seint í gærkvöld. Talið er að ökumaðurinn hafi misst stjórn á bíl sínum á hálku með fyrrgreindum afleiðingum. Bílinn er töluvert skemmdur.  

Víða er hálka á götum bæjarins og því full ástæða fyrir ökumenn að aka varlega. Þá er hálka á öllum leiðum á Norðaustur- og Austurlandi, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir nokkuð víða en hálka frá Hofsós í Siglufjörð. Á Vestfjörðum er hálka á fjallvegum en hálkublettir víða á láglegndi. Á Vesturlandi eru víða hálkublettir. Á Suðurlandi eru allir helstu vegir auðir en á Suðausturlandi er snjóþekja og éljagangur frá Vík í Kvísker.

Nýjast