"Það er nú verið að kynna fyrir okkur drög að skýrslu um snjóflóðahættu á þessum slóðum," segir Guðný Sverrisdóttir sveitarstjóri Grýtubakkahrepps. Hún átelur það sleifarlag sem verið hefur í málinu, rúmlega fjögur ár eru liðin frá því flóðið féll, en fyrst nú er verið að kynna sveitarstjórn drög að skýrslu um snjóflóðahættu á svæðinu. Einn maður býr á Hvammi. Samkvæmt skýrslunni er hætta á snjóflóðum fyrir hendi á þessum slóðum og ljóst að grípa þarf til ráðstafana að sögn sveitarstjóra. Guðný segir að til greina komi að gera varnargarð ofan bæjarins eða þá að kaupa húsið. Enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um hverjar lyktir málsins verða.