01. júlí, 2010 - 15:32
Fréttir
Meirihluti bæjarstjórnar á Akureyri hefur enn ekki gengið frá ráðningu nýs bæjarstjóra en stefnt hafði verið að
því að ljúka málinu fyrir mánaðarmót. “Skýringin á því er sú að við héldum að þetta
væri enga stund gert og tæki í mesta lagi viku. Fjöldi umsækjenda og mannvalið hefur hins vegar gert þetta mun flóknara mál,” segir Oddur
Helgi Halldórsson, formaður bæjarráðs. Oddur segir að Capacent Gallup hafi verið að ræða við fólk og vinna úr
umsækjendum þá sem helst þykja koma til greina og á hann von á því að meirihlutinn fái tillögur með nokkrum nöfnum
fljótlega, jafnvel nú um helgina.
Í framhaldinu muni meirihlutinn ræða við þá umsækjendur og skoða þeirra feril. “Ég er alveg hættur að segja eða
gera ráð fyrir að þetta verði komið í dag eða á morgun. Best gæti ég trúað að það geti enn verið vika eða
svo í þetta,” segir Oddur Helgi.