10. apríl, 2008 - 22:20
Fréttir
Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri segir að ástæða þess að skipulag á Sjallareitnum svonefnda
náði ekki fram að ganga sé alls ekki sú að bæjarfulltrúar vinni að málum í hálfu starfi.
Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri SS-Byggis sagði í viðtali við Vikudag í fyrri viku að ferlið varðandi Sjallareitinn hefði tekið
6 ár og enn sæi ekki fyrir endann á því. Verkefnið Akureyri í öndvegi hefði tafið fyrir framkvæmdum í miðbænum, ekki
flýtt fyrir því og eins gagnrýndi hann seinagang innan bæjarkerfisins hvað þessi mál varðar. Sigrún Björk segir skipulagsnefnd
stóra og viðamikla og hún fundi tvisvar í mánuði. "Við reynum að flýta afgreiðslu mála eins og kostur er og skipulagsstjóri vinnur
innan sinna heimilda að fullnaðarafgreiðslu mála sem flýtir fyrir afgreiðslu," segir hún.
"Við erum í gríðarmikilli vinnu varðandi miðbæinn og niðurstaðan var að hugmyndir sem fram komu í tengslum við verkefnið Akureyri
í öndvegi yrðu látnar ganga fyrir." Sigrún Björk segir að ýmsum hugmyndum hafi verið varpað fram varðandi Sjallareitinn, m.a. að
byggja þar 12 hæða blokkir en slíkt hafi ekki fengist samþykkt á sínum tíma. Þá segir hún að verkefnið Akureyri í
öndvegi hafi að sínu mati verið nauðsynlegt ferli sem skilaði sér inn í aðalskipulagsgerð en þar voru lagðar línur m.a. varðandi
hæð bygginga á miðbæjarsvæðinu og fleira. Í aðalskipulagi voru einnig lagðir fram deiliskipulagsrammar, m.a. að Sjallareitnum þar
sem gert er ráð fyrir að götumyndin við Strandgötu haldi sér og að nýbyggingar geti verið allt að 6 hæðir auk þess sem gert er
ráð fyrir verslun og þjónustu á reitnum.