Byggingarfyrirtækið SS Byggir hafði leitað eftir leyfi bæjaryfirvalda til að byggja tvö 7 hæða fjölbýlishús fyrir allt að 70 íbúðir á umræddu svæði. Aðalskipulag Akureyrar 2005-2018 gerir ráð fyrir þéttingu byggðar á reitnum, nýrri íbúðarbyggð með þéttleika allt að 25 íb/ha. Samkvæmt því er heimilt að byggja 57 íbúðir á svæðinu.
Skipulagsstofnun sendi bæjaryfirvöldum á Akureyri erindi í júlí sl., þar sem fram kemur að stofnunin geti ekki tekið afstöðu til efnis eða forms deiliskipulagsins fyrr en skýringar/lagfæringar hafa borist við ýmsum atriðum. Jafnframt óskaði Skipulagsstofnun eftir staðfestingu bæjarstjórnar á þeim breytingum. Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar og samþykkti deiliskipulagstillöguna í gær með áðurnefndri breytingu.