07. febrúar, 2008 - 14:58
Fréttir
Byggðarráð Norðurþings, Jón Helgi Björnsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þráinn Gunnarsson ásamt sveitarstjóra Bergi Elíasi
Ágústssyni, komu á fund bæjarráðs Akureyrar í morgun til viðræðna um stöðu mála varðandi fyrirhugað álver
á Bakka. Í kjölfarið var samþykkt bókun þar sem fram kemur að bæjarráð Akureyrar lýsir yfir eindregnum stuðningi við
áform um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík. Á undanförnum árum hefur alvarlegur samdráttur í fiskvinnslu og
landbúnaði haft veruleg áhrif á afkomu fólks, atvinnuöryggi og búsetu á svæðinu.
Á síðustu 10 árum hefur íbúum á svæðinu frá Húsavík til Raufarhafnar, sem nú heitir Norðurþing,
fækkað um 15%. Mest hefur fækkunin verið í aldurshópnum 40 ára og yngri, en í þeim aldursflokki hefur íbúum fækkað um
25%.
Kjölfesta í atvinnumálum er nauðsynleg til þess að snúa vörn í sókn og viðhalda gróskumikilli byggð á
Norðausturlandi. Fyrirhugað álver á Bakka getur skapað þessa kjölfestu. Álverið mun skapa um 300 ný framtíðarstörf og afleidd
störf verða mun fleiri og áhrifa þeirra mun gæta langt út fyrir Norðurþing, ekki síst á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu.
Bæjarráð skorar því á stjórnvöld að beita sér fyrir því að af þessum framkvæmdum geti orðið sem fyrst,
segir ennfremur í bókun bæjarráðs. Baldvin H. Sigurðsson sat hjá við afgreiðslu.