Hermann Jón Tómasson, Samfylkingu fékk mest greitt, ríflega 5,3 milljónir króna, en hann situr í bæjarstjórn, bæjarráði, framkvæmdaráði, Sorpsamlagi Eyjafjarðar, stjórnsýslunefnd, skipulagsnefnd og var einnig í verkefnahópum um fimleika- og íþróttahús Giljaskóla, um Naustaskóla, um Þórssvæðið og um gólf íþróttahúsa. Næst á eftir kemur Elín Margrét Hallgrímsdóttir, Sjálfstæðisflokki með rúmlega 5,1 milljón króna í laun. Hún situr í bæjarstjórn, bæjarráði, framkvæmdaráði, skólanefnd, stjórn Akureyrarstofu, auk þess sem hún var í starfshópi um vinabæjarsamstarf, verkefnislið um Naustaskóla og sat aðalfund Eyþings. Þriðji launahæsti bæjarfulltrúinn var Hjalti Jón Sveinsson, Sjálfstæðisflokki með tæplega 4 milljónir króna í laun á liðnu ári. Hann er í bæjarstjórn, bæjarráði, framkvæmdaráði, náttúruverndarnefnd, umhverfisnefnd og í verkefnalið vegna fimleika- og íþróttahúss Giljaskóla. Baldvin Sigurðsson, Vinstri grænum fékk 3,5 milljónir í laun og Jóhannes Gunnar Bjarnason 3,2 milljónir, þá voru þau Oddur Helgi Halldórsson, og Sigrún Stefánsdóttir með ríflega 3 milljónir króna, Kristján Þór Júlíusson með um 2,3 milljónir. Þær Kristín Sigfúsdóttir, Vinstri grænum og Helena Þuríður Karlsdóttir, Samfylkingu fengu um 1,7 milljón í laun fyrir störf sín á vegum bæjarstjórnar og Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, Sjálfstæðisflokki fékk um 1,5 milljónir fyrir setu í bæjarstjórn og bæjarráði, menningarmálanefnd og verkefnislið Naustaskóla.
"Ég hef áður óskað eftir upplýsingum af þessu tagi, en ekki með formlegum hætti. Mér finnst að bæjarbúar eigi að vita hvað bæjarfulltrúar fá greitt fyrir sín störf. Þessi mál eiga að vera uppi á borðinu og ég var fráleitt að óska eftir þessum gögnum af því ég taldi eitthvað glæpsamlegt í gagni," segir Oddur Helgi. Hann segir fátt hafa komið á óvart, greinilegt sé þó að meirihlutaflokkarnir skipti embættum misjafnlega á milli bæjarfulltrúa sinni; sumir sitji í mörgum nefndum og ráðum, aðrir færri og beri þannig misjafnlega mikið úr býtum. "Fyrst þegar ég tók sæti í bæjarstjórn fannst mér ég fá vel borgað fyrir þessi störf, en það er löngu liðin tíð. Þessu fylgir mikið álag og fjarvera frá vinnu svo eitthvað sé nefnt," segir Oddur Helgi.
Í umræddum tölum eru einnig laun sem féllu til síðustu tvær vikurnar árið 2006 og þá er um að ræða heildarlokatölu vegna setu í ýmsum verkefnahópum, sem að einhverju leyti hófst einnig það ár.