Atli: Ekki hægt að tapa með fulla höll

„Við þurftum að hafa mikið fyrir þessu og HK er náttúrulega með frábært lið,” sagði Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar eftir eins marks sigur liðsins gegn HK í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld N1-deildinni. Akureyri er því enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar, en tæpara mátti það ekki vera í kvöld þar sem lokatölur urðu 32:31.

 

„Við vorum alltof værukærir í fyrri hálfleik þar sem við gátum oft komist í fimm mörk en fengum mörk á okkur í bakið. Við vorum að missa boltann illa og HK refsaði okkur með hraðarupphlaupum,” sagði Atli.

„Í seinni hálfleik voru við aftur komnir fimm mörkum yfir en vorum að fá rosalega mörg mörk á okkur á línunni sem við náðum ekki að stoppa. Við náum hins vegar að rífa okkur upp og liðið sýnir frábæran karakter í lokin að klára þetta.”Atli viðurkennir að það hafi farið um hann á tímabili í leiknum en norðanmenn lentu tveimur mörkum undir seint í seinni hálfleik eftir að hafa haft forystu allan leikinn.

 „Það fór um mig eiginlega allan leikinn enda frábært lið sem við vorum að mæta,” sagði Atli, sem hrósaði stuðningsmönnum Akureyrarliðsins sem voru frábærir í kvöld, en alls voru 1250 manns í Höllinni sem létu vel í sér heyra.

„Stuðningurinn frá áhorfendum var frábær í kvöld og það var ekki hægt að tapa með fulla höll,” sagði Atli Hilmarsson.

Nýjast