Átak lögregluembætta á Norður- landi í fíkniefnamálum framlengt

Sameiginlegt átak lögregluembætta á Norðurlandi í fíkniefnamálum hefur verið framlengt fram á vor. Dómsmálaráðherra og lögreglustjórar á Norðurlandi undirrituðu samkomulag í ágúst sl. um sameiginlegt átak gegn fikniefnum. Komið var á fót sérstöku þriggja manna fíkniefnateymi á Akureyri ásamt lögreglumanni með fíkniefnahund.  

Alls komu 118 fíkniefnamál inn á borð Lögreglunnar á Akureyri í fyrra; helmingi fleiri en árið áður. Þetta má rekja til sameiginlegs átaks lögregluembættanna á Norðurlandi í fíkniefnamálum, segir á vef RÚV.

Eins og fram hefur komið í Vikudegi, nær átakið til alls fjórðungsins, m.a. hafa lögreglumenn á Akureyri, Húsavík, Blönduósi og Sauðárkróki tekið þátt í því auk Ríkislögreglustjóra. Það hófst þann 1. september sl. og á fyrstu þremur mánuðunum, eða fram til desember komu upp 50 fíkniefnamál á svæðinu. Lögreglumenn ásamt hundi hafa farið í framhalsskóla á Norðurlandi, leitað bæði í skólum og heimavistum, þeir hafa einnig verið á ferðinni á skemmtistöðum, farið um svæði þar sem vöruflutningar fara fram, svo sem á flugvöllum, pósthúsum og afgreiðslum flutningabíla.  Að auki hafa hundar verið notaðir við húsleitir og leit í bílum.  Fíkniefnahundarnir hafa komið að góðum notum og sannað gildi sitt.

Nýjast