11. nóvember, 2010 - 13:08
Fréttir
Árni Helgason ehf. átti lægsta tilboð í byggingu um 490 metra langs sjóvarnargarðs á Hjalteyri en tilboð í verkið voru opnuð
hjá Siglingastofnun í morgun. Alls bárust átta tilboð í verkið og voru sjö þeirra undir kostnaðaráætlun. Tilboð Árna
Helgasonar hljóðaði upp á tæpar 11,9 milljónir króna, eða 63,5% af kostnaðaráætlun en hún hljóðar upp á
rúmar 18,7 milljónir króna.
Fyrirtækið Dalverk ehf. átti næst lægsta tilboð, rúmar 12,7 milljónir króna, eða tæplega 68% af kostnaðaráætlun.
Norðurtak ehf. átti þriðja lægsta tilboð, rúmar 13,7 milljónir króna, eða rúmlega 73% af kostnaðaráætlun. Hæsta
tilboð átti VK verktakar ehf. rúmar 19,8 milljónir króna, sem er 106% af kostnaðaráætlun. Farið verður yfir tilboðin en verkinu á
að vera lokið um miðjan mars á næsta ári.