Árleg flugeldasýning á Akureyri á gamlárskvöld

Flugeldasýningar á gamlárskvöld urðu fastur liður í áramótum Akureyringa fyrir 15 árum. Þetta kvöld fjölmenna bæjarbúar á áramótabrennu við Réttarhvamm, kl. 20.30, kveðja gamla árið í hópi vina og ættingja og njóta síðan flugeldasýningar sem Súlur, björgunarsveitin á Akureyri sér um kl. 21.00.  

Leonard Birgisson björgunarsveitarmaður á Akureyri segir að á bak við hverja flugeldasýningu liggi mikil vinna og megi ætla að fyrir sýninguna á gamlárskvöld séu unnar um 200 klukkustundir við undirbúning. Á gamlárskvöld koma 15 svokallaðir skotstjórrar að sýningunni og í heildina fara hátt á þriðja hundrað vinnustundir í sýninguna.

Leonard segir að í kreppunni sem ríkir í íslensku efnahagslífi hafi reynst erfitt að fá kostunaraðila fyrir flugeldasýninguna um þessi áramót en þó hafi nokkur fyrirtæki ákveðið að leggja sitt af mörkum til þess að sýningin í ár geti orðið að veruleika og hafa Súlur því ákveðið að sýningin verði með sama hætti og hingað til. Norðlenska, Vífilfell, Brauðgerð Kristjáns og Brim, hafa lagt fram styrki þetta árið og tryggt að þrátt fyrir þrengingar verði glæsileg flugeldasýning á gamlárskvöld.

Nýjast