Önnur gönguferð verður að Hraunsvatni undir leiðsögn Sigurðar Inga Friðleifssonar. Lagt er upp í báðar þessar ferðir frá Hrauni kl. 9:00. Þriðja gönguferðin verður suður í Hraunin að Hraunsá kl. 14:00 undir leiðsögn Tryggva Gíslasonar. Minningarstofan um Jónas Hallgrímsson á Hrauni verður opin frá kl. 14:00 til 18:00. Guðrún María Kristinsdóttir kynnir þar kl. 16:00 líf og starf náttúrufræðingsins Jónasar Hallgrímssonar.
Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehf var stofnað á dánardegi Jónasar 26. maí 2003. Tilgangur þess er að reka fræðasetur að Hrauni í Öxnadal í minningu skáldsins og náttúrufræðingsins, kynna líf hans og starf, vinna með öðrum stofnunum að efla lifandi og sögulega menningu og stofna þjóðgarð í landi Hrauns í Öxnadal og auka atvinnu á svæðinu.
Íbúðarhús, sem reist var 1933 á grunni torfbæjarins, þar sem Jónas fæddist, hefur verið gert upp frá grunni: einangrað og klætt innan, lagnir endurnýjaðar, settir í húsið gluggar í upphaflegri mynd, þak endurnýjað, gólf slípuð og olíuborin og húsið málað utan og innan. Þar er nú fræðimannsíbúð og minngarstofan. Auk þess er í landi Hrauns fólkvangur, ósnortið útivistarsvæði fyrir almenning.
Næsta stórverkefni félagsins er að innrétta sýningarskála í hlöðu frá 1960 þar sem verður föst sýning um Jónas og aðstaða til fyrirlestra og til að taka á móti litlum hópum til fræðslu og kynningar. Við allar framkvæmdir á Hrauni hefur þess verið gætt að breyta sem minnst ásýnd staðarins.