Flugfélag Íslands er aðal samstarfsaðili G.A. um framkvæmd mótsins. Verðlaun eru frá Hole in one, NTC verslununum og heildverslun Rolf Johansen. Mótið hefst á fimmtudegi með glæsilegri setningarathöfn þar sem boðið er upp á hlaðborð með norðlenskum veitingum. Fyrsti ráshópur er ræstur kl. 16 á fimmtudag og eru þá leiknar 18 holur og frá kl. 16 á föstudag eru leiknar aðrar 18 holur fram á rauða nótt. Leikið er eftir Stableford punktakerfi með og án forgjafar auk þess sem verðlaun eru veitt fyrir besta árangur í kvenna- og öldungaflokki án forgjafar. Samhliða leik er spiluð liðakeppni. Fjórir eru saman í liði og valið er í liðin af handahófi.
Lokahóf Arctic Open á laugardagskvöld er sannkölluð stórveisla þar sem verðlaunin eru afhent og boðið upp á skemmtiatriði. Veðurútlit er einstaklega gott og Jaðarsvöllur verður í mjög góðu standi þegar Arctic Open fer fram. Það eru því fræbærir golfdagar framundan þar sem allir skemmta sér vel frá morgni og fram á nótt.
Undanfarin ár hafa verið gerðar breytingar og endurbætur á Jaðarsvelli og á næstu árum eru einnig fyrirhugaðar stórhuga
framkvæmdir. Þær munu gerbreyta vellinum og gera hann að einum besta golfvelli á landinu. Þær munu einnig opna nýja og stórkostlega
möguleika fyrir Golfklúbbinn til að markaðssetja Arctic Open mótið og aðrar uppákomur sem hingað laða kylfinga, jafn innlenda sem erlenda.
Á vef mótsins, www.arcticopen.is er hægt að fá allar upplýsingar um mótið og fylgjast með fréttum
af því.