Handknattleiksmaðurinn Andri Snær Stefánsson mun yfirgefa Akureyri Handboltafélag í sumar og halda til Jótlands í Danmörku, þar sem hann mun freista þess að fá samning hjá úrvalsdeildarliðinu Árhus GF. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Andri Snær, sem getur bæði leikið sem vinstri skytta og vinstri hornamaður, segir við Morgunblaðið að takist honum ekki að fá samning hjá Árhus mun félagið aðstoða hann við að komast að hjá liðum í nágrenni félagsins.
Akureyri Handboltafélag heldur því áfram að missa leikmenn frá liðinu en Andri er sá fjórði í röðinni sem yfirgefur félagið. Áður höfðu þeir Jónatan Þór Magnússon og Árni Sigtryggsson fært sig um set og markvörðurinn Hörður Flóki Ólafsson lagði skóna á hilluna.