Andrea Mist skrifar undir hjá Þór/KA

Andrea Mist Pálsdóttir segist ánægð með að vera komin heim. Mynd: thorka.is
Andrea Mist Pálsdóttir segist ánægð með að vera komin heim. Mynd: thorka.is

Andrea Mist Pálsdóttir hefur skrifað undir samning við Þór/KA og mun því leika með liðinu í sumar.

Hún kemur frá sænska úrvalsdeildarliðinu Växjö og hefur skrifað undir tveggja ára samning við Þór/KA.

Hér heima á Andrea Mist að baki 154 meistaraflokksleiki og 30 mörk. Þar af eru 108 leikir í efstu deild, en hún hefur einnig verið hjá FFC Vorderland í Austurríki, Orobica Calcio á Ítalíu og Växjö í Svíþjóð.

Meistaraflokksferillinn með Þór/KA hófst sumarið 2014, þegar hún var á 16. ári. Leikirnir með Þór/KA eru orðnir 141 (25 mörk), þar af 97 í efstu deild. Þá á Andrea Mist að baki þrjá A-landsleiki og 30 landsleiki með yngri landsliðum Íslands. Hún hefur leikið fimm Evrópuleiki með Þór/KA.

Andrea Mist er öflugur miðjumaður, en hefur jafnframt stundum brugðið sér í fremstu víglínu. Engum blöðum er um það að fletta að Andrea Mist mun styrkja miðjuna hjá Þór/KA.

Heima er best

Í spjalli við heimasíðuritara Þórs/KA kvaðst Andrea Mist vera ánægð að koma aftur heim.

„Heima er alltaf best og ákvörðunin um að koma aftur heim er gríðarlega góð tilfinning. Ég kem heim sem betri leikmaður og reynslunni ríkari. Að spila í Svíþjóð á hæsta „leveli“ gaf mér svo ótrúlega mikið sem manneskja og leikmaður. Stefnan var alltaf að vera að spila áfram í Svíþjóð en við féllum og þá var tilfinningin og hugsunin um að koma heim og spila með Þór/KA í sumar spennandi. Fjölskyldan og kærastinn eru búsett á Akureyri og því spilaði það líka stóran þátt í þessari ákvörðun minni,“ segir Andrea Mist.


Athugasemdir

Nýjast