Ánægja með hugmyndir um fækkun akgreina á Glerárgötu

Hverfisnefnd Oddeyrar hefur sent frá sér ályktun, þar sem lýst er ánægju með hugmyndir um fækkun akreina á Glerárgötu úr fjórum í tvær á kaflanum frá Kaupvangsstræti að Strandgötu, en leggur þunga áherslu á að fækkun akreina nái alla leið norður að Þórunnarstræti. Þá vill hverfisnefndin að Akureyrarvöllur verði aðgengilegt grænt útivistarsvæði fyrir alla bæjarbúa.  

Helsti ávinningur breytinga á Gleárgötu væri lækkun á umferðarhraða á götunni sem þýðir:

  • Bætta tengingu Oddeyrar við Miðbæ og Brekku, en Oddeyrin er núna nokkurs konar eyja í bænum
  • Aukið umferðaröryggi, akandi og gangandi vegfarenda
  • Minna svifryk

Auk þess verður við þetta til grundvöllur fyrir gangstétt vestan Glerárgötu frá Þórunnarstræti að Smáragötu/Grænugötu, sem auðveldar samgöngur milli miðbæjarins og Glerártorgs. Á það má benda að samkvæmt umferðarfræðilegum útreikningum á þessi aðgerð ekki að hafa teljandi tefjandi áhrif á umferð á svæðinu. 

Hverfisnefnd Oddeyrar vill að Akureyrarvöllur verði aðgengilegt grænt útivistarsvæði fyrir alla bæjarbúa og óskar eftir því við bæjarstjórn Akureyrar og skipulagsyfirvöld að aðgengi að Akureyrarvelli verði auðveldað þegar í stað. Vænlegast væri að taka girðinguna sem umlykur völlinn niður en a.m.k. með því að opna hliðin við sitthvorn enda vallarins. Oddeyringar hafa lítinn aðgang að grænum svæðum og að vetrarlagi hafa þeir engan aðgang að sleðabrekku.

Hverfisnefnd skorar auk þessa á skipulagsyfirvöld að breyta í framhaldinu Akureyrarvelli í almenningsgarð og falla frá áformum um húsbyggingar á svæðinu.  Hugmyndir um verslunarhúsnæði á svæðinu eru sem bergmál fortíðar sem einkenndist af taumlausri neysluhyggju, græðgisvæðingu og endalausri húsbyggingaáráttu.

Nýjast