ESPAD verkefnið hófst árið 1993 og er meginmarkmið þess að safna gögnum um neyslu 15-16 ára unglinga á áfengi, tóbaki og ólöglegum fíkniefnum í flestum löndum Evrópu á fjögurra ára fresti. Niðurstöður verkefnisins hafa legið forvarnastarfi víðast hvar í Evrópu til grundvallar og byggir Evrópusambandið til dæmis mat sitt á breytingum á vímuefnaneyslu unglinga í Evrópu að mestu leyti á niðurstöðum þess.
Ísland hefur átt aðild að ESPAD verkefninu frá upphafi og tekið þátt í öllum umferðum þess. Þá er alþjóðlegur gagnabanki ESPAD verkefnisins starfræktur á vegum Rannsóknaseturs forvarna við Háskólann á Akureyri. Gagnabankinn geymir upplýsingar um breytingar á vímuefnaneyslu evrópskra unglinga frá 1995 til 2007 og þá þætti sem skýrt geta mun á þróun mála milli einstakra landa og svæða innan Evrópu. Fjöldi fræðimanna víðsvegar um Evrópu vinnur nú að úrvinnslu þessara gagna og hafa ýmsar mikilvægar niðurstöður á grundvelli þeirra birst í helstu fræðitímaritum á þessu sviði.
Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri hefur stýrt íslenska hluta ESPAD verkefnisins frá upphafi og situr hann jafnframt í stjórn hins alþjóðlega verkefnis. Fyrr í þessu viku hlaut Þóroddur 3,5 milljón króna styrk frá Forvarnasjóði vegna framkvæmdar ESPAD á Íslandi og var það stærsti rannsóknastyrkurinn sem Forvarnasjóður úthlutaði að þessu sinni. Jafnframt nýtur verkefnið stuðnings frá Háskólasjóði KEA.
Viðurkenning fyrir Akureyri
Þóroddur bendir á að ársfundurinn á Akureyri sé mikilvæg viðurkenning á því mikla starfi sem unnið hafi verið á sviði forvarnarannsókna við Háskólann á Akureyri. Unnið hafi verið að því í rúman áratug að slíkur ársfundur verið haldinn á Akureyri og það hafi loks tekist. „Valið stóð á milli Akureyrar eða Larnaca á Kýpur og það var sérstaklega ánægjulegt hversu mikill meirihluti þátttakenda í verkefninu greiddi Akureyri atkvæði sitt. Beina flugið frá Kaupmannahöfn til Akureyrar var hins vegar forsenda þess að hægt væri að halda fundinn hér," segir Þóroddur.
Nokkuð óvenjulegt er að ráðstefna af þessu tagi sé haldin í grunnskóla en fram til þessa hafa ársfundir ESPAD verið haldnir í háskólum eða ráðuneytum víða um Evrópu. Þóroddur telur hins vegar mjög viðeigandi að ráðstefna um málefni unglinga sé haldin í grunnskóla þar sem unglingar lifa og starfa. „Skóladeild Akureyrar og sérstaklega Gunnar Gíslason fræðslustjóri eiga miklar þakkir skildar fyrir að gefa leyfi fyrir ársfundinum í Brekkuskóla. Öll aðstaða þar er til fyrirmyndar og staðsetningin til þess fallin að gefa ráðstefnugestum hvaðanæva úr Evrópu góða mynd af skólabænum Akureyri."
Ársfundurinn er að mestu leyti ætlaður þátttakendum í ESPAD rannsóknarverkefninu. Mánudaginn 14. júní kl. 14:45 - 16:00 verður hins vegar opin málstofa í Brekkuskóla þar sem fjallað verður um áfengisneyslu unglinga með sérstaka áherslu á tengsl áfengis og ofbeldis. Fyrirlesarar verða Ludwig Kraus frá Þýskalandi, Andreea Steriu frá Mön, Sabrina Molinaro frá Ítalíu og Þóroddur Bjarnason frá Háskólanum á Akureyri.