Jón gegndi stöðu sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóði Norðlendinga á árunum 1997 til 2005 en sparisjóðurinn sameinaðist Byr sparisjóði árið 2007. Kona hans er Sigrún Björk Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og oddviti Sjálfstæðismanna í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hjónin gerðu með sér kaupmála þann 23. nóvember síðastliðinn, daginn áður en starfsmenn sérstaks saksóknara framkvæmdu húsleit í höfuðstöðvum Byrs. Þar eru allar fasteignir Jóns færðar yfir á eiginkonuna, tæplega þrjú hundruð fermetra einbýlishús þeirra á Akureyri er nú eingöngu skráð á Sigrúnu en fasteignamat hússins er tæpar 34 milljónir króna. Þá er helmingshlutur Jóns í annarri fasteign á Akureyri einnig komið á nafn eiginkonunnar en húsnæðið var áður í eigu Sparisjóðs Norðlendinga. Sömu sögu er að segja um helmingshlut í 3,7 hektara landskika í Hörgárbyggð, sem og fjórðungshluta í sumarhúsi í Ölfusi. Ennfremur er eignarhlutur Jóns í hlutafélagi kominn yfir á nafn konunnar og sérstaklega tilgreint í kaupmálanum að bankareikningur Sigrúnar sé séreign hennar ásamt þeirri innistæðu sem þar kann að vera á hverjum tíma. Sigrún Björk neitar því harðlega, í fréttinni á vef RÚV, að með kaupmálanum hafi hjónin verið að koma undan eignum.
„Mér finnst það með hreinum ólíkindum að vera í viðtali út af þessu fyrir hið fyrsta. Að þetta skuli vera samfélagið sem við erum að kalla yfir okkur finnst mér vera með hreinum ólíkindum. Þetta er gert til að upplýsa. Þetta er lögformlegur gjörningur á milli okkar hjóna, fyrst og fremst til að hafa allt á hreinu," segir Sigrún sem vill ekki gefa upp skuldastöðu eiginmanns síns. „Hann á nægar eignir til að standa fyrir öllum sínum skuldbindingum og meira til." Sigrún segist hafa gert grein fyrir málinu á fundi Sjálfstæðisflokksins um daginn. „Ég hafði frumkvæði að því, af því að ég hafði orðið vör við þær sögusagnir sem hér geysa. Sem mér finnst vera miður. Því ég tel mig hafa unnið af einurð og heiðarleika í öllum mínum störfum og þetta eru einfaldlega ofsóknir sem eru spunnar af illum rótum," segir Sigrún Björk ennfremur á vef RÚV.