Aldrei of seint að gefast upp

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Ég varð undrandi þegar félagi Jóni Hjaltason hélt því fram í síðasta Vikudegi að ég hafi sagt það vera kjánalegt af honum að spyrja af hverju Akureyringum sé aldrei boðið að taka af skarið um deiluefni er upp koma og varða bæinn okkar.  Ástæða undrunar minnar er einfaldlega sú staðreynd að þessu hef ég aldrei haldið fram. Aldrei. Hins vegar drap ég á í næstsíðasta Vikudegi að það væri kjánalegt af honum að staðhæfa að verktakar geti byggt eftir eigin höfði þvert á ríkjandi skipulag eins og hann hélt fram í blaðinu í síðasta mánuði. Það er óþarfa útursnúningur að tengja þessi ummæli um kjánagang öðru en því sem um var rætt. Þessi aðferðafræði minnir mig á þegar við strákarnir í Ránargötunni til forna vorum að gorta umfram tilefni af eigin afrekum og komust stundum í nauðvörn þegar vegur sannleikans var orðinn ófær og við þurftum að beina athyglinni eitthvað annað svo ekki sæist að hreystiverk okkar voru töluvert utan hins þrönga ramma sannleikans. Þá var gott að beina athyglinni í aðrar áttir eins og félagi Jón kýs að gera með því að færa lykilorð milli málaflokka og mér með því eignuð skoðun sem ég aðhyllist alls ekki og hef aldrei gert - þvert á móti.

Íbúaþingið sannkallað íbúalýðræði

Satt að segja átti ég ekki von á að vera sakaður um andúð á virku íbúalýðræði og síst frá virtum sagnfræðingi. Ég held að engu sé logið þó því sé haldið fram að við sem stóðum fyrir verkefninu Akureyri í öndvegi (AÖ) stuðluðum að ítarlegri umfjöllun almennings í bænum um þær meginlínur sem farið skyldi eftir við hönnun eystri hluta miðbæjarins. Yfir 1600 manns tóku þátt í mjög vandaðri stefnumótunarvinnu og niðurstöðurnar viðurkenndar af bæjaryfirvöldum og lagðar til grundvallar þegar vinna hófst við miðbæjarskipulagið. Þessa vinnu fjölda bæjarbúa talar Jón niður til og kallar borgarafund þar sem fundargestir, í smáum hópum, létu gamminn geisa. Síðan segir hann að örfáir einstaklingar hafi að fundi loknum valið úr hugmyndum hópanna sem þeim leist best á og sagt niðurstöður fundarins. Hann er þar með að segja að allt þetta sjálfboðaliðastarf hafi verið gert af óheilindum sem er auðvitað fjarri lagi enda mjög vandað til alls undirbúnings íbúaþingsins sæla og niðurstöðurnar teknar saman af virtu fagfólki sem lætur ekki spila svona með sig. Eins og kunnugt er voru meginóskir íbúaþingsins þær að hús sem byggð yrðu austan Skipagötu snéru austur-vestur til að mynda skjól fyrir ríkjandi vindáttum, tryggð yrði greið leið fyrir gangandi niður að Pollinum og að hús sem byggð yrðu á reitunum austan Skipagötu væru lágreist og í samræmi við byggðina þar fyrir vestan.  Þetta var ekki flólknara enda skýr skilaboð í anda sannkallaðs íbúalýðræðis. Síðan var eftir þeim farið í öllu ferlinu við gerð núgildandi miðbæjarskipulags.

Frá íbúaþinginu árið 2004 sem lagði meginlínur um skipulag miðbæjarins. 
Nú virðast uppi hugmyndir um að hverfa frá þessum niðurstöðum þingsins,
án þess að ræða þá stefnubreytingu við bæjarbúa.

Miklar umræður leiddu til niðurstöðu

Jón fullyrðir að út úr íbúalýðræðinu (væntanlega íbúaþinginu) hafi komið arkitektahugmynd sem hafi fallið í afar grýttan jarðveg hjá bæjarbúum og á þar líklega við síkið fræga. Þettta er í besta falli misskilningur því hugmynd arkitekts um síkið kom ekki fram fyrr en löngu eftir að íbúaþinginu var slitið og ekkert í niðurstöðum þess sem gaf til kynna að óskað  væri eftir síki eða slíkri útfærslu. Arkitektunum voru gefnar frjálsar hendur að bera fram sínar tillögur innan þess ramma sem íbúaþingið ákvað og áður er getið. Þeir lögðu svo fram  152 tillögur sem AÖ gaf bænum.  Síðan vita þeir sem vita vilja að eftir miklar og almennar umræður í nokkur ár um skipulag miðbæjarins var komist að sameiginlegri niðurstöðu í bæjarstjórn árið 2014 þar sem margir urðu að láta undan síga með sínar tillögur og þar á meðal hugmyndina um síkið. Sem sagt: Til varð málamiðlun eins og gerist meðal siðaðra manna. Hún er núgildandi stefna Akureyrarbæjar um skipulag miðbæjarins.

Greið leið niður að Pollinum

Í síðustu grein minni í Vikudegi var fjallað um nauðsyn þess að fara að gildandi skipulagi og færa Glerárgötuna til austurs milli Torfunefs og Strandgötu. Endurtek þau rök ekki hér en vísa í umrædda grein.  Þrátt fyrir að ég þykist hafa sýnt þar fram á að það yrði til lengri tíma litið mun fjárhagslega hagkvæmara fyrir bæinn að færa götuna ögn austar, auk þess sem það er forsenda vistvænni umferðar, hamrar félagi Jón á því að með þeirri færslu yrði rekinn tappi í samgöngukerfi með alvarlegum afleiðingum. Þetta tel ég vera mikinn misskilning því í greinargerð með gildandi skipulagi segir að með "þessum breytingum ásamt nýjum byggingum vestan götunnar verður Glerárgata, Pollurinn og Hof órjúfanlegur hluti miðbæjarins." Auk þess segir þar að með þessari tilfærslu verði umferðaröryggi við Glerárgötu bætt  "og henni breytt í aðlaðandi bæjargötu."  Með þessu var lagður grunnur að því að koma til móts við ósk íbúaþingsins og fjölda manns síðan um greiða gönguleiðir frá efri hluta miðbæjarins og niður að sjó eins og núgildandi skipulag gerir ráð fyrir.  Sú leið verður alltént ekki greið og vistvæn  gangandi vegfarendum ef þar fara um öskrandi og spúandi bílar á fullri ferð. Enginn - ekki einu sinni félagi Jón - hefur sýnt fram á að það dæmi gangi upp.

Eru skipulagsmál leyndarmál?

Nú hlýtur að vekja nokkra furðu að við félagarnir erum einir að skiptast á skoðunum opinberlega um þetta mikilvæga málefni en aðrir þegja þunnu hljóði. Ekki heyrist eitt aukatekið orð frá bæjarfulltrúum. Hins vegar skipaði bæjarráð í sumarfríi bæjarstjórnar nefnd til að endurskoða deiliskipulag miðbæjarins án nokkurs rökstuðnings. Síðan hefur gripið um sig þrúgandi þögn allra bæjarfulltrúa um málið rétt eins og þarna sé verið að fjalla um einkamál þeirra sjálfra. Allt tal þeirra um nauðsyn íbúalýðræðis er horfið sjónum og eftir standa bæjarbúar sem vita ekkert hvernig þessu mikilvæga málefni vindur fram; allt voða leyndó. Sjálfur hef ég og félagar mínir í Samfylkingunni reynt að fá upplýsingar frá fulltrúum okkar í bæjarstjórn. Þá umvefja þeir um sig huliðshjúp og neita að segja nokkuð um sína skoðun og hvað sé í pípunum innan bæjarstjórnar í málinu rétt eins og okkur hinum komi það ekkert við; okkar hlutverk sé bara bíða niðurstöðunnar eins og gerist í kjöri páfa í Róm þar sem álit almúgans er ekki hátt skrifað.

Bæði ungir og aldnir tóku virkan þátt í umræðum um tillögugerð,
á eina íbúaþinginu sem haldið hefur verið á Akureyri.
Spurning hvort komið sé að því að halda annað íbúaþing,
áður en afdrífaríkar ákvarðanir verða teknar í bæjarstjórn.

Ólyginn fugl sagði

Svo flaug lítill fugl yfir bergmálslausa múra Ráðhússins nú í haust og heyrði á tal ótilgreindra bæjarfulltúa sem höfðu komist að þeirri niðurstöðu að hverfa þyrfti frá meginákvörðunum í skipulaginu um vistvænan miðbæ því forsendur hefðu breyst með því að ferðafólki hafi fjölgað meira en ráð var fyrir gert við gerð skipulagsins. Fuglinum fataðist flugið þegar einn bæjarfulltúi bætti við og sagði að vegna þess arna væri orðið úrelt að tala um vistvænan miðbæ því aukin mannfjöldi kallaði á öflugri umferðarmannvirki og meiri umferðarhraða í gegnum miðbæinn. Bætti því svo við að allt tal um greiða leið fótgangandi niður að sjó yrði að víkja því ferðamenn vildu helst vera í farartækjum sem eiga greiða leið gegnum bæinn. Allt tal um að þeir vilji frekar rölta hindrunarlaust í gegnum miðbæinn, inn í innbæ og upp á brekku væri bara einhver missskilningur sem ekki væri ástæða til að dvelja við. Upp með hraða bílaumferð í gegnum miðbæinn og þá fjölgar ferðamönnum enn frekar og allir verða kátir!  

Fuglinn okkar sundlaði við þennan málflutning og það svo mjög að hann settist á grein með félögum sínum, hristi fjaðrirnar og sagði: "Það þarf nú stærri heila en ég hef í mínum litla haus til að skilja þessa speki."  Skyldi engan undra því hingað til hefur verið gengið út frá því að skipulagið miði "að því að  efla möguleika til vistvænna ferðamáta þannig að dregið verði úr þörf fyrir notkun einkabíla," eins og segir í greinargerð fyrir núgildandi skipulag miðbæjarins. Eða getur verið að  bæjarbúar vilji láta undan síga um vistvænan miðbæ, færa bíla í forgang og halla sér síðan að kaldhæðnisorðum Þorvaldar okkar Þorsteinssonar, að aldrei sé of seint að gefast upp? Gefast upp fyrir ágangi bílaumferðar, fórna draumnum um greiða leið gangandi og hjólandi og láta síðan auðnu ráða. Þar með yrði Akureyri eitt fárra sveitarfélaga sem kysi slíka vafasama skipulagsstefnu og að sjálfsögu án aðkomu bæjarbúa sjálfra enda virðast slíkir snúningar gagnvart almenningi líka úrelt fyrirbæri að áliti valdafólks.

Eigum betra skilið

En þrátt fyrir áðurnefndan fréttaflutning fuglsins okkar góða vona ég að við félagi Jón Hjaltason þurfum ekki í elli okkar að hýrast undir BS0-skúrnum við umferðarhávaða og svifryk frá hraðbrautinni miklu og horfa suður yfir bílastæðin undurfögru sem staðið hafa af sér allar framfarir og uppbyggingu á svæðinu í áraraðir. Hjálpi okkur allir heilagir frá þeim örlögum bæjarins okkar kæra. Höldum frekar áfram á braut sem þegar hefur verið mörkuð af bæjarbúum, sérfræðingum og bæjaryfirvöldum.     

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

 


Athugasemdir

Nýjast