Akureyringar sigursælir í ljósmyndakeppni af fuglum

Brimnes hótel í Ólafsfirði stóð fyrir ljósmyndakeppninni „Fugl fyrir milljón" í sumar af fuglum á Tröllaskaga auk Grímseyjar og Hríseyjar. Þessir staðir bjóða upp á margar perlur fyrir fuglaljósmyndara en að þessu sinni virtist sem menn væru vantrúaðir á að það væri í rauninni ein milljón króna í verðlaun ásamt fjölmörgum öðrum vinninningum.  

Það var þó raunin og síðastliðinn laugardag voru þau afhent á Brimnes hóteli rétt áður en menn héldu til að fagna opnun Héðinsfjarðarganga. Akureyringar komu sáu og sigruðu í keppninni en í fyrsta sæti var hinn þekkti fuglaljósmyndari Einar Guðmann, með myndina "Langvíuspeglun". Myndin var tekin í fjörunni í fuglaparadísinni Grímsey í júlí sl. en miklar langvíubyggðir eru þar og varpið búið að teygja sig niður í fjörugrjót. Fuglinn var gæfur og stillti sér nánast upp fyrir Einar. Í öðru sæti varð annar þekktur fuglaljósmyndari, Gyða Henningsdóttir, með myndina „Rita í Presthvompum í Grímsey". Ritan hefur margt að segja eins og fram kemur á mynd Gyðu en bakgrunnurinn er hellir sem eitt sinn náði í gegnum eyjuna. Auðvelt er að komast niður í Presthvompurnar fyrir þá sem langar að skoða staðinn, sem iðar af lífi og fjöri fuglanna. Segja má að Grímsey sé hinn stóri sigurvegari keppninnar því í þriðja sæti var Siglfirðingurinn Sigurður Ægisson, einnig með mynd úr Grímsey af lunda við holu umvafinn Skarfakáli í Handfestargjá í Miðgarðabjargi.

Auk milljón króna verðlaunanna sem fyrirtækið Norlandía lagði til, fengu verðlaunahafar fuglaverk eftir Garúnu, listakonu í Ólafsfirði, Fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson er Forlagið gaf, stækkanir á verkum sínum frá Pedrómyndum og gistingu á Brimnes hóteli Ólafsfirði.

Stefnt er að því að halda aftur keppnina „Fugl fyrir milljón" að ári liðnu þannig að allir geta farið að beina myndavélum sínum til himna, að sjó og um móa og mýrlendi til að fanga fugl fyrir milljón næsta sumar.

Nýjast