Akureyri vann átta marka sigur í Kaplakrika

Akureyri heldur sigurgöngu sinni áfram í N1-deild karla í handbolta og í dag voru það FH-ingar sem urðu fyrir barðinu af norðanmönnum. Sveinbjörn Pétursson átti hreint magnaðan leik milli stanganna hjá Akureyri og varði 27 skot. Fyrri hálfleikurinn var jafn framan af en FH náði þriggja marka forystu, 9:6, um miðjan hálfleikinn. Akureyri náði hins vegar góðum kafla fyrir hlé og leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 15.13.

 

Akureyri hélt svo sama dampi í seinni hálfleik og hreinlega niðurlægði FH-inga á tímabili á þeirra eigin heimavelli en norðanmenn náðu mest tólf marka forystu og vann að lokum sannfærandi sigur, 33:25.

Bjarni Fritszon var markahæstur í liði Akureyrar með 9 mörk en hjá FH voru það nafnarnir Ólafur Guðmundsson og Ólafur Gústafsson sem skoruðu mest eða 7 mörk hvor. 

Með sigrinum trónir Akureyri á toppi deildarinnar með 14 stig en FH hefur áfram átta stig í fjórða sæti. HK hefur 12 stig í öðru sæti en Akureyri og HK mætast í sannkölluðum toppslag í Íþróttahöllinni á Akureyri á fimmtudaginn kemur, þann 25. nóvember.

Nýjast