Akureyri lagði Aftureldingu að velli með fimm marka mun

Akureyri vann fimm marka sigur gegn nýliðunum í Aftureldingu, 28:23, er liðin mættust í kvöld í Íþróttahöll Akureyrar í annarri umferð N1-deildar karla í handbolta. Fín stemmning var í Höllinni í kvöld en um 800 manns, flestir á bandi heimamanna, létu vel í sér heyra. Líkt og gegn HK í fyrstu umferðinni höktu leikmenn Akureyrar í byrjun leiks í kvöld og Afturelding komst í 3:1 á upphafs mínútunum. 

 

Norðanmenn komust fljótlega í gang en leikurinn var jafn og mest allan fyrri hálfleikinn munaði aldrei meira en tveimur mörkum. Heimamenn náðu ágætis endaspretti og höfðu þriggja marka forystu í hálfleik, 15:12, í annars jöfnum fyrri hálfleik. 

Akureyri byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og náði átta marka forystu í stöðunni 21:13, en það tók gestina um níu mínútur að komast á blað í seinni hálfleik. Norðanmönnum gekk þó illa að hrista gestina af sér sem gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í þrjú mörk þegar fjórar mínútur voru til leiksloka en Akureyringar hleyptu gestunum ekki nær og lönduðu fimm marka sigri, 28:23.

Bjarni Fritzson virðist kunna afar vel við sig hjá liði Akureyrar en annan leikinn í röð var hann markahæsti leikmaður liðsins með 9 mörk, þar af 4 úr vítum. Guðmundur Hólmar Helgason og Oddur Gretarsson skoruðu báðir 5 mörk og þeir Hörður Fannar Sigþórsson og Geir Guðmundsson komu næstir með fjögur mörk hvor. Sveinbjörn Pétursson stóð allan tímann á milli stanganna í liði Akureyrar og varði 16 skot, þar af 2 víti.

Í liði Aftureldingar var það Arnar Theódórsson sem var atkvæðamestur með 5 mörk, Ásgeir Jónsson skoraði 4 mörk og þeir Eyþór Vestmann og Bjarni Aron Þórðarson skoruðu þrjú mörk hvor. Hafþór Einarsson stóð sig ágætlega á sínum gamla heimavelli og varði 8 skot fyrir Aftureldingu, en Smári Guðfinnsson varði 2 skot.

Eftir fyrstu tvær umferðirnar hefur Akureyri fullt hús stiga eða fjögur stig og vermir toppsætið. Afturelding er hins vegar án stiga. 

Nýjast