Akureyri Brosir með hjartanu á Vetrarhátíð í Reykjavík

Ferðaþjónusta á Akureyri og Norðurlandi öllu verður kynnt í Höfuðborgarstofu á Vetrarhátíð í Reykjavík sem fram fer 13. og 14. febrúar.  Á morgun föstudag milli klukkan 14-17 er starfsfólki ferðaþjónustufyrirtækja sérstaklega boðið til að kynna sér ferðaþjónustu á Akureyri og Norðurlandi öllu en á laugardaginn frá klukkan 10-17 er opið hús fyrir alla.
 

Gestir miðborgarinnar munu fljótt verða varir við að gestirnir frá Akureyri Brosa með hjartanu, þar sem hjörtun rauðu verða sett upp víðsvegar um borgina og ekki nóg með það, heldur munu ísskurðarmenn skera út hjörtu úr ís við Höfuðborgarstofu á morgun og laugardag.  Þeir munu einnig vera að verki við gerð íshjarta á Austurvelli þar sem Kærleiksganga hefst á laugardaginn klukkan 17.  Rétt er að minnast einnig á bráðskemmtileg örnámskeið í norðlensku sem leikarinn Oddur Bjarni Þorkelsson mun sjá um.  Slíkt námskeið þykir vera gott veganesti fyrir alla þá sem leggja leið sína norður. Fólk er hvatt til að láta sjá sig og kynna sér fjölbreytta möguleika í ferðaþjónustu á Akureyri og Norðurlandi.

Meðfylgjandi er yfirlit yfir dagskrána í Höfuðborgarstofu:

Föstudagurinn 13. febrúar

Íshjörtu við Höfuðborgarstofu !  Ísskurðarmenn búa til hjörtu úr Ís á gangstéttinni um kl: 15:00. Fengist hefur staðfest að ísbjörn úr Skagafirði verður á röltinu um miðborgina um helgina.  Þá hefur einnig  frést að Stúfur (Jólasveinn úr Mývatnssveit) hafi orðið viðskila við hópinn og verði líka á röltinu í miðborginni á morgun. Akureyrarhjörtun rauðu sem brosa svo blítt munu setja svip sinn á miðborgina. Hvað liggur þér á hjarta? Happadrætti með glæsilegum vinningum sem fela í sér ferðalag norður. Veitingamaðurinn Friðrik V frá Akureyri og Júlli Fiskidagsmaður frá Dalvík bjóða upp á súpu. Matvælaklasarnir á Norðurlandi, Matarkistan Skagafjörður, Síldin frá Siglufirði, Matur úr Eyjafirði og Þingeyska matarbúrið verða með smárétti og kynningu í anddyri Ingólfsnausts  á 1. hæð.


Laugardagurinn 14. febrúar

Opið hús í Höfuðborgarstofu frá klukkan 10 - 17.
Íshjörtu við Höfuðborgarstofu - Ísskurðarmenn búa til hjörtu úr ís á gangstéttinni fyrir framan Höfuðborgarstofu klukkan 11.  
Leikfélag  Akureyrar sýnir brot úr leikritinu „Fúlar á Móti" klukkan 14 og 16. Örnámskeið í Norðlensku.  Leikarinn Oddur Bjarni, frá Húsavík verður á svæðinu og býður gestum og gangangi upp á góða örþjálfun í norðlensku.
Íshjörtu á Austurvelli.  Ísskurðarmenn búa til hjörtu úr ís við upphaf Kærleiksgöngu klukka 17. Súpa og matarsmakk frá Matvælaklösum Norðurlands og Friðriki V á Akureyri allan daginn! Hvað liggur þér á hjarta?  Happadrætti sem felur í sér glæsilega vinninga sem fela í sér að leiðin liggur norður. Skagfirskur ísbjörn  verður á svæðinu.

Nýjast