Geir Guðmundsson var í aðalhlutverki í sóknarleik Akureyrar en hann skoraði fyrstu fimm mörk heimamanna úr fimm skotum. Akureyri náði mest fimm marka forystu í fyrri hálfleik en Selfyssingar voru ekki á því að leggja árar í bát og skoruðu þrjú síðustu mörkin í hálfleiknum og minnkuðu muninn í þrjú mörk. Ragnar Jóhannsson hélt sóknarleik Selfyssinga uppi í fyrri hálfleik með sjö mörk. Staðan 15:13 þegar flautað var til leikhlés.
Selfyssingar komu heimamönnum á óvart í upphafi seinni hálfleiks með því að spila maður á mann vörn. Virkilega athyglisvert og sló það norðanmenn útaf laginu og gestirnir minnkuðu muninn í eitt mark. Akureyringar voru þó fljótir að taka við sér aftur og náðu fljótlega þriggja marka forystu. Selfyssingar náðu að minnka muninn í tvö mörk um miðjan seinni hálfleik en nær komust þeir ekki og heimamenn náðu fimm marka forystu þegar fjórar mínútur voru eftir og sigurinn gott sem tryggður. Lokatölur 34:29.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 9, Geir Guðmundsson 8, Oddur Gretarsson 5, Guðlaugur Arnarsson 4, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Heimir Örn Árnason 2.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 24, Stefán Guðnason 1 (víti)
Mörk Selfyssinga: Ragnar Jóhannsson 9 (2), Guðjón Drengsson 9,Árni Steinn Steinþórsson 4, Atli Kristinsson 3, Einar Héðinsson 3, Ómar Helgason 1, Helgi Héðinsson 1, Gunnar Ingi Jónsson 1.
Varin skot: Birkir Bragason 10.