Gríðarleg stemmning var í Höllinni í kvöld og um 800 manns létu vel í sér heyra. Akureyri er með sigrinum komið í toppsæti deildarinnar með 8 stig, þar sem FH á ekki leik fyrr en á laugardag en Akureyri hefur unnið alla fjóra leiki sína deildinni. Haukar hafa 4 stig í fjórða sæti. Það tók norðanmenn þó rúmar fjórar mínútur að komast á blað í leiknum í kvöld.
Markverðir beggja liða voru í aðalhlutverki á upphafsmínútunum og staðan 1:1 þegar rétt tæpar tíu mínútur voru búnar af leiknum. Leikurinn var afar jafn framan af en norðanmenn leiddu með einu til tveimur mörkum. Akureyri náði svo þriggja marka forystu þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður, 8:5 og leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 12:10.
Haukar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn. Birkir Ívar Guðmundsson var kominn á milli stanganna og varði 2 skot í byrjun, þar af 1 vítakast og Haukur jöfnuðu 12:12. Akureyri var þó ávallt skrefinu á undan í leiknum og norðanmenn náðu þriggja marka forystu á ný, 17:14, um miðjan hálfleikinn. Haukar náðu mest að minnka muninn í tvö mörk og norðanmenn léku á alls oddi síðustu mínúturnar, þó enginn betur en markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson, sem fór hreinlega á kostum og átti stóran þátt í sex marka sigri Akureyrar. Lokatölur 25:19.
Bjarni Fritzson var sem oft áður markahæstur í liði Akureyrar með 8 mörk, þar af 1 úr víti. Oddur Gretarsson skoraði 6 mörk, þar af 1 úr víti, Heimir Örn Árnason 5 mörk og Geir Guðmundsson kom honum næstur með 4 mörk. Sem fyrr segir átti Sveinbjörn Pétursson stórleik í marki Akureyrar og varði 22 skot.
Í liði Hauka var það Þórður Rafn Guðmundsson markahæstur með 5 mörk, þar af 3 úr víti, og þeir Björgvin Þór Hólmgeirsson og Freyr Brynjarsson komu næstir með 3 mörk. Aron Rafn Eðvarðsson stóð á milli stanga Haukamanna í fyrri hálfleik og varði 10 skot. Birkir Ívar Guðmundsson leysti hann af í seinni hálfleik með fínni innkomu en hann varði einnig 10 skot.