Akureyrarflugvöllur lokast yfir daginn komi til verkfalls

Komi til verkfalls slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna á morgun, föstudag, mun Akureyrarflugvöllur lokast milli kl. 8:00 og 16:00. Ari Fossdal, stöðvarstjóri Akureyrarflugvallar, segir flugvöllinn þann eina á landinu sem muni lokast. Kemur þetta til vegna þess að slökkviliðsmenn á Akureyrarflugvelli heyra undir Landssamband slökkviliðsmanna.  

Til að mæta þessum skakkaföllum hefur verið ákveðið að bæta við aukaferðum kl. 07:50 í fyrramálið og kl. 16:10. „Þess á milli verður ekki flogið hér á morgun," segir Ari.

Vegna verkfallsboðunar Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna vill Akureyrarbær taka fram að ef til þess kemur þá mun öllum neyðartilvikum verða sinnt af hálfu slökkviliðsins, hvort sem um er að ræða bruna, sjúkraflutninga á landi eða sjúkraflug. Starfsmenn í eldvarnareftirliti og starfsmenn slökkviliðsins á Akureyrarflugvelli munu leggja niður störf á föstudaginn kemur 23. júlí frá kl. 08.00 - 16.00. Akureyrarbær væntir þess að samningsaðilar nái saman sem fyrst.

Nýjast