Fangelsið á Akureyri var formlega opnað í dag við hátíðlega athöfn um miðjan daginn. Þar með lauk öðrum áfanga í áætlun um endurnýjun og uppbyggingu fangelsa í landinu,sem mótuð hefur verið af dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fangelsismálastofnun.
Allur aðbúnaður í fangelsinu er góður og í samræmi við nútímakröfur. Sex fangaverðir starfa í fangelsinu og hefur stöðugildum verið fjölgað um tvö.
Eftir endurbætur er unnt að vista 10 fanga í fangelsinu, þar af eru tvö rými sem geta hýst kvenfanga. Í fangelsinu eru vistaðir fyrirmyndarfangar, enda stundi þeir vinnu eða nám í fangelsinu auk þess skulu fangar taka þátt í endurhæfingaráætlun. Fangar sjá að mestu um sig sjálfa, þ.e. elda, þrífa, þvo þvott og þjálfast í öðru sem tengist almennri lífsleikni. Þar með koma þeir betur undirbúnir út í samfélagið að lokinni fangavistinni og jafnframt er dregið úr líkum á frekari afbrotum síðar.
Páll Winkel, forstöðumaður Fangelsisstofnunar, sagði í ávarpi sínu að þetta væri mikill gleðidagur fyrir fangelsið og einnig fyrir þá sem standa að þessu kerfi.Þá sagðist Páll ennfremur vera þreyttur á stanslausri umræðu um lúxus fanga í fangelsinu hér á Akureyri og að bera það saman við fimm stjörnu hótel væri algjörlega út í hött.
Erlendur Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun, sagði í ræðu sinni að aðstaða fyrir fanga og starfsfólk hefði stórbatnað með nýja fangelsinu. Erlendur talaði mikið um meintan lúxus í ræðu sinni og benti á að það geti varla verið nokkur lúxus sem fylgir því að vera í fangelsi. Hann sagði ennfremur að fangelsi á Íslandi kæmu vel út í samanburði við fangelsi á Norðurlöndunum.