Bergvin segir að veður hafi að mestu verið gott norðan heiða á meðan á upptöku stóð, en þó hafi mikið hvassviðri sem stóð yfir í um viku sett nokkurt strik í reikninginn. Nokkuð var um að grös fuku ofan af með þeim afleiðingum að kartöflur skemmdust. Telur hann að uppskera eigi eftir að rýrna nokkuð af þessum sökum, að líkindum megi gera ráð fyrir 10% afföllum vegna þessa hvassviðris.
Verð fyrir kartöflur er afar lágt og segir Bergvin útlitið ekki bjart, ekki síst í ljósi þess að boðað hafi verið að áburður næsta vor muni hækka um 100% frá því sem nú er. Hann segir þó nokkuð hafa verið um að smærri framleiðendur á Eyjafjarðarsvæðinu og víðar um land hafi hætt á liðnu vori.
Ár kartöflunnar, á vegum Sameinuðu þjóðanna fer senn að ljúka og formlegri dagskrá á vegum íslenskra kartöflubænda er lokið en m.a. þess sem þeir stóðu fyrir var útgáfa á bæklingi með uppskriftum og mæltist hann mjög vel fyrir að sögn Bergvins. Nýlokið er við að prenta 50 þúsund eintök og er það önnur prentun, en sú fyrri er uppurinn. "Bæklingurinn hefur fengið gríðargóðar viðtökur og þegar er um helmingur seinna upplagsins farinn, en það er mikið um að ýmis konar félagasamtök og skólar biðji um hann, þannig að það má segja að þessi kartöflubæklingur okkar hafi hitt í mark," segir Bergvin. Höfundur uppskriftanna, Sigríður Bergvinsdóttir, hefur vart undan að mæta á kynningar og samkomur þar sem hún eldar og kynnir kartöflurétti fyrir gesti.