Margir góðir tónlistarmenn leggja samtökunum lið á þessum styrktartónleikum og má þar nefna hljómsveitirnar Hvanndalsbræður, Helga og hljóðfæraleikarana, Sniglabandið og Umsvif og tónlistarmennina Sigga kaptein, Eyþór Inga Gunnlaugsson og Einar Ágúst Víðisson. Kynnir á tónleikunum er Skúli Gautason.
Málefnið er mjög brýnt en samkvæmt ársskýrslu Aflsins varð 75% aukning í hópavinnu á síðasta ári og fer fjöldinn vaxandi. Konur (fólk) víða af landinu leita til samtakanna og hefur verið óskað eftir því að fulltrúar þeirra komi í nágrannasveitarfélög Akureyrar til að vera með kynningu, einkaviðtöl og jafnvel hópavinnu.
Styrktartónleikar Aflsins eru að verða árviss viðburður og hafa aðstandendur samtakanna fundið fyrir jákvæðum og góðum viðbrögðum við undirbúninginn að þessu sinni. Sjallinn opnar kl 20.30 og hefjast tónleikarnir stundvíslega 21.21. Forsala verður í Pennanum á Glerártorgi og er miðaverð 2.000 krónur.