Zontaklúbbur Akureyrar afhenti nýverið Listasafni Íslands frumgerðina (gifsmynd) af styttu listakonunnar Nínu Sæmundsson af Jóni Sveinssyni, Nonna, við hátíðlega athöfn. Zontasamtökin eru alþjóðleg félagasamtök sem vinna að því að bæta stöðu kvenna um víða veröld. Zontaklúbbur Akureyrar var stofnaður árið 1949 og mjög fljótlega ákváðu félagskonur að heiðra minningu hins þekkta barnabókahöfundar Nonna. Þær fengu að gjöf gamalt, hálfónýtt hús í innbænum á Akureyri nefnt Pálshús. Það var notað sem geymsla og það stóð til að rífa það. En þetta var ekki bara hús—þetta var æskuheimili Nonna. Þarna átti hann heima frá því að hann var 7 ára þegar fjölskyldan flutti þangað frá Möðruvöllum í Hörgárdal og þar til hann fór 12 ára gamall til náms út í hinn stóra heim. Zontakonur endurbyggðu húsið og söfnuðu öllu sem þær gátu sem tengdist Nonna. Í húsinu eru miklir dýrgripir, bækur Nonna á 30 tungumálum, teikningar úr bókum hans Jesúitahempa hans og ferðakoffort og þannig mætti lengi telja. Og 16. nóvember 1957 þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Nonna var Nonnahús opnað við hátíðlega og virðulega athöfn. Það verður að teljast mikið og ómetanlegt afrek að Zontakonum skyldi takast að bjarga svo miklum menningarverðmætum frá glötun. Nonnahús hefur notið vinsælda langt út fyrir landsteinana og gestir safnsins eru af ótrúlega mörgum þjóðernum, íslenskir sem erlendir. Þar má nefna fólk frá Evrópu sem leitaði athvarfs í bókum hans í hildarleik styrjaldanna á síðustu öld, hlýddi á fyrirlestra hans eða hitti hann persónulega, silfurhærða öldunginn með bláu augun. Þetta fólk kom í pílagrímsferð í Nonnahús og gekk þar um með tárin í augunum. Nonnahús var þeim helgur staður. En víkjum að styttunni. Zontakonur vissu að Nína Sæmundsson hafði gert styttu af Nonna í tilefni af 100 ára ártíð hans. Í Nonnahúsi var til mynd af af Nínu þar sem hún vinnur að gerð styttunnar í Reykjavík. Zontakonur vildu gjarnan setja þessa styttu á stall við Nonnahús en þegar til átti að taka vissi enginn hvar styttan var niðurkomin og nú hófst mikil leit. Anna Snorradóttir sem hafði verið félagi í Zontaklúbbi Akureyrar og Stefanía Ármannsdóttir, félagi í klúbbnum og fyrrverandi safnvörður í Nonnahúsi voru frumkvöðlar að því að leita að styttunni. Eftir mikla leit fann Anna Snorradóttir styttuna uppi á lofti á Korpúlfsstöðum sumarið 1992. Zontaklúbbur Akureyrar fékk styttuna að gjöf frá Menningasjóði Ríkisins árið 1993. Styttan var send til Þýskalands og steypt í varanlegt efni. Margir komu að fjármögnun þessa verkefnis og verður þeim seint fullþakkað. Samskip flutti styttuna t.a.m. út og heim að kostnaðarlausu, Akureyrabær styrkti verkefnið og tollar fengust endurgreiddir er styttan kom til landsins. Múrarinn Jónas Sigurðsson, sem setti styttuna á stallinn gaf vinnu sína. Þannig tókst þetta verk svo giftusamlega. Styttan var sett á stall framan við Nonnahús og afhjúpuð á afmælisdegi Akureyrar 29. ágúst 1995. Það var hátíðleg stund þegar Anna Snorradóttir og Stefanía Ármannsdóttir afhjúpuðu styttuna að viðstöddu fjölmenni í blíðskaparveðri. Félögum í Zontaklúbbi Akureyrar er mjög ljúft að heiðra minningu listakonunnar Nínu Sæmundsson með því að gera þetta listaverk hennar svo sýnilegt. Með gjöf frumgerðar af styttunni til Listasafns Íslands hefur hringnum nú verið lokað. Zontakonur reistu styttuna á heimaslóð. Nonni stendur traustum fótum og horfir út á pollinn og vísar veginn að litla húsinu sem einu sinni var æskuheimili hans en er núna og verður um ókomna tíð minningasafn um hann. Og Nonni er kominn heim.
Fyrir hönd Zontaklúbbs Akureyrar
Ragnheiður Hansdóttir