Afhentu Flugsafninu módel af flugvélum Norðurflugs

Þess var minnst á Flugsafni Íslands á Akureyri í vikunni að 44 ár voru liðin frá því tveimur flugvélum af gerðinni Beechcraft var flogið frá Bandaríkjunum til Akureyrar, en Norðurflug hafði keypt vélarnar vestra og notaði síðan um árabil í flugrekstri sínum.   

Tryggvi Helgason stofnaði flugfélagið 1. nóvember árið 1959 og rak það til ársins 1974. Félagið sinnti að sögn Tryggva  m.a. sjúkraflugi og þá var leiguflug stór þáttur í starfseminni.  Flugsafninu var við athöfnina afhent módel af flugvélum sem notaðar voru í rekstri Norðurflugs.

Tryggvi komst í kynni við foringja í bandaríska flughernum, Lorren L. Perdue og hafði  hann milligöngu um að útvega vélarnar í heimalandi sínu.  Bauðst hann til að fljúga vélinni og útvegaði að auki félaga sína úr hernum til að ferja hina vélina til nýrra heimkynna.  Um borð í vélunum voru 6 manns, Lorren, David sonur hans, þá 15 ára, Björn Sveinsson flugvirki og þrír félagar Lorerens úr hernum.  Lorren, sem er 86 ára gamall en afar ern segir að það hafi verið mikið ævintýri að ferja vélarnar til Íslands, en m.a. lentu flugmenn í slæmu veðri á leiðinni.  Þeir Lorren og Tryggvi hafa haldið sambandi allar götur frá því vélunum var flogið yfir hafið fyrir 44 árum og lék sá fyrrnefndi á alls oddi við athöfnina í gær. Líkt og fyrra sinnið er hann kom til Akureyrar var sonur hans með í för, nú að nálgast 60 ára aldur en hann var lengi flugmaður í Bandríkjunum.  Báðir voru afar ánægðir með að vera viðstaddir á Flugsafninu í gær þegar módelin voru formlega afhent.  "Mér fannst það skylda mín að vera við þessa athöfn, það sama má segja um David son minn, hann vildi endilega koma aftur eftir öll þessi ár," segir Lorren L. Perdue.

Tryggvi segir að hugmyndin af því að láta smíða módel af vélunum Norðurflug og afhenda Flugsafninu til eignar hafi komið frá Birni, "þetta er hluti af sögu Norðurflugs og ég er afar ánægður með að þau eru nú í eigu safnsins, þar eiga þau heima.  Mér þykir líka vænt um þá virðingu sem mínu gamla fyrirtæki er sýnt með þessu og er ákaflega hrifinn af safninu, það er einstakt afrek að hafa komið því upp," segir Tryggvi.

Nýjast