Ævintýrið um andarnefjunar heldur áfram á Akureyri

Ævintýrið um andarnefjurnar á Akureyri heldur áfram, því tvær bættust við gær og eru þær nú fimm. Þrjár voru á Pollinum, þar sem þær hafa haldið sig undanfarið, en tvær voru við Krossanes. Ein andarnefja fannst við dauð við Nes í Höfðahverfi á dögunum en sú hafði flækst í bauju á Pollinum.  

Droplaug Ólafsdóttir líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun sagði í samtali við mbl.is að vísindamenn hafi enn enga skýringu á því hvers vegna skepnurnar séu við Akureyri. „Það er hugsanlegt að óvenju margar andarnefjur hafi verið norðan við land í sumar en við vitum það ekki. Þær rak óvenju margar í Þingeyjarsýslum í sumar, allar löngu dauðar; höfðu drepist úti á sjó og rekið með straumum. En á meðan við vitum ekki hve mikið er af andarnefju í djúpinu norðan við land eigum við erfitt með að útskýra þessa göngu inn Eyjafjörð," sagði Droplaug.

Andarnefjur eru yfirleitt sunnar í Atlantshafinu á veturna en oft norðan við land á sumrin, en þá mun utar. Þær eru djúpsjávartegund og sjást oft langt frá landi. Ástandið er óvenjulegt, svo ekki sé meira sagt. Fyrst komu tvær andarnefjur á Pollinn, kýr og kálfur, og hafa nú dvalið hátt á annan mánuð. Fyrir nokkrum vikum komu tvær til viðbótar - tveir „unglingar" en annar þeirra er dauður og rak á land við Nes í Höfðahverfi á dögunum. Og nú hafa tvær bæst við; dúettinn varð kvartett, hann varð tríó en nú er orðinn til andarnefjukvintett við Akureyri!

„Það er ekkert óeðlilegt þó ein og ein andarnefja villist inn á grunnsævi og rati ekki út aftur en þetta er sérstakt," sagði Droplaug sem vill ekki útiloka að dýrin hafi elt eitthvert æti inn fjörðinn, einhverja torfufiska, og segir andarnefjurnar geta staldrað í nokkrar vikur en varla mikið lengur. „Þetta er auðvitað áhugavert og ef fólk sér andarnefjur víðar hvet ég til þess að það tilkynni okkur það. Við viljum endilega fylgjast með og safna upplýsingum. Líka ef þær sjást utar, norðan við land. Það væri gott að vita af því," sagði Droplaug Ólafsdóttir líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, í samtali við mbl.is.

Nýjast