Ævintýralegur sigur Þórs gegn Víkingi- Jafnt hjá KA og Njarðvík

Þór vann hreint út sagt ævintýralegan sigur gegn Víkingi R. á Þórsvelli í kvöld, 4:3, á Íslandsmótinu í 1. deild karla í knattspyrnu. Þegar komið var fram í uppbótartíma var staðan 3:2 fyrir Víking og allt útlit fyrir sigur gestanna. Þórsarar náðu hins vegar að skora tvö mörk á þriggja mínútna kafla undir lok leiksins og tryggðu sér hreint ótrúlegan sigur. Á Njarðtaksvelli gerðu Njarðvík og KA 1:1 jafntefli. Dean Martin skoraði mark KA í leiknum en mark Njarðvíkinga skoraði Einar Helgi Helgason.

Það blés þó ekki byrlega fyrir Þór í upphafi leiks á Þórsvelli. Víkingur fékk óskabyrjun en strax á 5. mínútu leiksins skoraði Walter Hjaltested með þrumuskoti fyrir utan teig, eftir að hafa fengið boltann eftir darraðadans í teignum hjá Þór. Í marki Þórs í kvöld lék hinn 17 ára gamli Guðmundur Ragnar Vignisson úr 2. flokki, þar sem báðir markverðir Þórs voru meiddir. Guðmundur þurfti að týna boltann öðru sinni úr netinu aðeins fjórum mínútum síðar er Egill Atlason skoraði eftir hornspyrnu. Staðan 2:0 fyrir gestina og rétt tæpar tíu mínútur liðnar af leiknum.

Þórsarar lögðu ekki árar í bát og voru mun meira með boltann en gekk erfiðlega að skapa sér færi. Á 24. mínútu tókst Þórsurum hins vegar að minnka muninn. Atli Sigurjónsson fékk boltann rétt utan við vítateigsboga Víkings og skoraði með gullfallegu skoti upp í samskeytin vinstra megin. Sannkallað draumamark hjá Atla. Staðan 1:2 og Þórsarar komnir inn í leikinn á ný. Á 38. mínútu fengu heimamenn svo dæmda vítaspyrnu, eftir að Magnús Þormar í marki Víkings hafði brotið á Nenad Zivanovic, er Nenad reyndi að teygja sig í boltann í teignum. Jóhann Helgi Hannesson fór á vítapunktinn en lét Magnús Þormar verja slaka spyrnu frá sér, en Jóhann gerði vel með að ná frákastinu og jafnaði metin fyrir Þór. Staðan 2:2 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Víkingur var mun betri aðilinn framan af seinni hálfleik og voru hættulegri í sínum sóknaraðgerðum. Það var svo níu mínútum fyrir leikslok að Viktor Örn Guðmundsson kom Víkingi verðskuldað í 3:2 með marki af stuttu færi inn í teig, eftir sendingu frá Helga Sigurðssyni. Það reyndist ætla að verða sigurmark leiksins, en þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma náði Jóhann Helgi Hannesson hins vegar að jafna metin fyrir Þór í 3:3. Jóhann reyndist svo hetja Þórsara er hann lagði upp sigurmarkið á 95. mínútu. Jóhann vippaði boltanum inn á teig gestanna og þar var Nenad Zivanovic vel staðsettur potaði boltanum í netið. Lokatölur á Þórsvelli, 4:3 sigur heimamanna.

Þór er þar með komið með 7 stig í deildinni en KA hefur 5 stig.

Nýjast