Íslandsmótið í 1. deild karla í körfubolta hófst í gærkvöld en Þórsarar spila sinn fyrsta leik í kvöld er liðið sækir Val heim kl. 20:00. Lið Þórs er nokkuð breytt frá síðastliðnum vetri. Nýr þjálfari er kominn við stjórnvölinn en Konrad Tota mun bæði þjálfa karla- og kvennalið félagsins, auk þess sem hann mun leika með karlaliðinu í vetur.
Tota segir að liðið ætli að setja sér markmið fyrir veturinn eftir leikinn í kvöld en hann stefnir þó leynt og ljóst hátt með Þórsliðið. „Flestir leikmennirnir sem til mín þekkja vita að ég vil og ætla mér upp með liðið í úrvalsdeildina," segir hann, en nánar er rætt við Tota í nýjasta Vikudegi.