Sveinbjörn Pétursson markvörður Akureyrar hefur verið frábær á milli stanganna hjá liðinu í fyrstu umferðum N1-deildar karla í handbolta. Sveinbjörn var valinn í úrvalslið fyrstu sjö umferðanna í vikunni og á hann stóran þátt í því að Akureyri hefur fullt hús stiga á toppi deildarinnar eða 18 stig, að níu umferðum loknum. Síðast í gær var hann svo valinn í A-landslið karla í fyrsta skiptið.
„Þetta er búin að vera draumabyrjun og ég get ekki annað en verið nokkuð sáttur með mína eigin frammistöðu,” segir Sveinbjörn. „Það var mjög skemmtilegt að vera valinn í lið fyrstu umferðanna og mikil viðurkenning fyrir mig. Núna verður maður bara að halda sér á tánum, það þýðir ekkert að slaka á og maður verður að taka næstu sjö leiki eins,” segir hann.
Sveinbjörn segist hafa bætt sig sem leikmaður frá sl. vetri er hann lék með HK, en það sé aðallega á andlegu hliðinni.
„Hér áður þegar maður spilaði illa að þá hljóp maður útaf í fýlu. Núna fer ég útaf, slaka aðeins á og hugsa minn gang og kem svo tvíelfdur til leiks. Maður hefur tekið út ákveðinn þroska sem leikmaður.”
Lengra viðtal við Sveinbjörn má finna í nýjasta tölublaði Vikudags.