Að hafa kjark og þor

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Framan af ævinni var ég ansi kjarklítil. Ég var þögul og feimin, svolítið inní mér.

Sem betur fer með aldri og auknum þroska, sjálfsrækt og æfingu fór ég að öðlast kjark. Ég fór að þora að hafa rödd og leyfa henni að heyrast.

Ein af mínum fáu leikskólaminningum er minningin um það þegar hópurinn var á leið út í göngutúr, en ég þurfti skyndilega á klósettið. Ég hafði ekki kjarkinn til að láta vita og sneri því við þegjandi og hljóðalaust, inn á litla klósettbásinn.

Þar sem enginn vissi af mér sat ég milli vonar og ótta og beið. Beið þess sem verða vildi. Að verða skilin eftir, inni á deild, á meðan hin börnin og fóstrurnar færu út í göngu.

Ég þakka enn reglulega í hljóði, stúlkunum tveimur, sem létu vita af mér. "Það er stelpa inni á klósettinu.." sögðu þær, svona rétt áður en stígvélaður hópurinn steig út fyrir dyrnar. 
Takk stelpur. Takk fyrir að hafa kjark og þor. Takk fyrir að tala máli mínu þegar ég þurfti sannarlega á því að halda.

 Það er þetta þor sem er mér hugleikið. Þetta samfélagslega þor.

Þegar við vitum af okkar (minnstu) systrum og bræðrum í vanda, er það okkar að hafa kjarkinn. Það er okkar að hafa vökul augu og bregðast við ef þarf. Hversdagslegir hlutir eins og börn í ójöfnum leik, vinnustaðagrín sem gengur of langt, nýbúi í vanda, dýr í hættu. Ekki síður en stærri hlutir eins og jafnrétti, málefni flóttafólks og hælisleitenda.

Því þegar við notum kjarkinn í þágu náungans, þá kveikjum við vonarneista hið innra, neista sem lifir áfram líkt og rúmlega þrjátíu ára gömul minning um tvær stelpur sem ég þekki ekki persónulega, en þakka enn í dag fyrir að hafa talað mínu máli þegar ég gat það ekki.  

- Huld Hafliðadóttir


Nýjast