12 mánaða börn fá leikskólavist

Framkvæmdir við byggingu Klappa, nýjum leikskóla í Glerárhverfi, ganga vel en með komu hans verður u…
Framkvæmdir við byggingu Klappa, nýjum leikskóla í Glerárhverfi, ganga vel en með komu hans verður unnt að bjóða 12 mánaða börnum leikskólapláss. Ljósmynd/Akureyrarbær.

Frá og með haustinu 2021 verður 12 mánaða gömlum börnum boðin leikskólavist á Akureyri eða börnum sem eru fædd í ágúst 2020 og eldri. Þetta kom fram í máli Ingibjargar Isaksen formanni fræðsluráðs á bæjarstjórnarfundi í gær þegar fyrri umræður um fjárhagsáætlun næsta árs fór fram og staðfestir hún þetta í samtali við Vikublaðið.

„Þetta var stærsta málið í síðustu kosningum, unnið hefur verið að þessu frá byrjun kjörtímabilsins og nú er þetta mikla hagsmunamál barnafjölskyldna að verða að veruleika,“ sagði Ingibjörg. Með tilkomu Klappa, nýja leikskólans við Höfðahlíð sem áætlað er að taka í gagnið haustið 2021 og Árholts, verður þetta möguleiki.

Áfram verður unnið að því að kanna möguleikann á fjölgun innritunardaga í leikskóla, það er að innrita 12 mánaða börn oftar yfir árið en ekki einungis að hausti eins og verið hefur. Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir 2,5% hækkun leikskólagjalda um næstu áramót og 7% hækkun á fæðisgjaldi í grunnskólunum.


Athugasemdir

Nýjast