Umbúðir án innihalds

Þegar ég var ungur drengur fékk ég að fara nokkrar ferðir með Ómari Vagnsyni til að tæma rusl. Hann var jafnan kallaður Ómar í ruslinu en hann sá um sorphirðu á Húsavík um árabil.Eipi

Þessi ruslaferð var krefjandi enda hávetur og í þá daga var aðeins ein ruslatunna við hverja íbúð. Heljarinnar blikktunna og í hana þurfti að sækja stóran svartan ruslapoka misfullan af rusli og skilja eftir nýjan í staðinn. Engum togum skipti þótt sækja þyrfti pokann langar leiðir hringinn í kringum húsin, vaðandi snjóinn upp á mitti. Pokinn skildi sóttur. Ruslið var ekki sent til Svíðþjóðar heldur var það brennt eða urðað innan bæjarmarkanna. Loftslagsvá og landvernd voru orð sem ekki höfðu ratað inn í orðaforða minn og lífið var bara nokkuð einfalt.

Endurnýttur Moggi

Einfaldleikinn var alls staðar. Stundum var ég sendur út í fiskbúð til að kaupa ýsuflök, þeim var pakkað inn í miðopnuna úr Morgunblaðinu. Eina eldhúsverkið sem karl faðir minn sinnti á meðan ég bjó á heimili foreldra minna var að hræra skyrið í hádeginu. Skyrið var keypt beint úr mjólkursamlaginu hvar því var vandlega pakkað inn í bréfpappír. Ef mamma þurfti 350g af kjötfarsi, þá fór hún út í búð og keypti nákvæmlega 350g af farsi.

Hamfarahlýnun

Hamfarahlýnun af mannavöldum er staðreynd og áhrifanna er þegar farið að gæta víða og mun versna ef ekkert er að gert. Lífsafkomu næstu kynslóða er ógnað. Það er óumdeilt innan vísindanna og stjórnvöld þykjast að minnsta kosti skilja vandann. Ljóst þykir að grípa þurfi til stórtækra aðgerða til að koma í veg fyrir frekari hlýnun.

Þó hættan blasi við okkur er ekki laust við að manni þyki mótvægisaðgerðir oft og tíðum marklausar. Sýndarmennska kemur æ oftar upp í hugann, enda bregðast stjórnvöld víða um heim hvað eftir annað við að mæta sínum eigin markmiðum þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda.

Þær aðgerðir sem fá mest pláss í umræðu í loftslagsmálum snúa að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Hið besta mál og nauðsynlegt, en takmarkað sem hinn almenni borgari getur gert til að hraða orkuskiptunum.

 Neysluhyggjan

Neysluhegðun er kannski það atriði sem við almúgafólkið mættum helst breyta en til þess að það skili einhverjum alvöru árangri þá þurfa að vera til alvöru valkostir. Það er ekki hægt að leggja þá ábyrgð eingöngu á herðar neytenda að draga úr sóun. Framleiðendum þarf augljóslega að stýra betur í átt að sjálfbærari framleiðsluháttum.

 Tunnuhagkerfið

Í dag er ég með fjórar stórar plasttunnur sem ég flokka ruslið mitt samviskusamlega í enda er ég afar hlynntur því  að úrgangurinn frá okkur rati inn í hringrásarhagkerfið. Það sem mér fallast hendur yfir er hins vegar magnið af sorpi sem ég ber út af heimili mínu. Þetta vil ég svo gjarna minnka en hef takmarkaða möguleika til þess.

Sem neytandi ætti ég að geta raðað í innkaupakerruna mína með góðri samvisku enda eru flestar vörur sem ég kaupi kyrfilega merktar sem umhverfisvænar eða endurnýtanlegar. Þegar betur er að gáð eru þessar merkingar reyndar alls ekki ætlaðar vörunni sjálfri í flestum tilfellum, heldur er átt við umbúðirnar. Það virðist allt kapp vera lagt á að selja okkur umbúðir sem láta okkur halda við séum að bjarga jörðinni frá sjálfum okkur. Og þvílíkur metnaður.

Innihald er í dag algjört aukaatriði enda verða umbúðir sífellt stærri, fallegri og jafnvel flóknari. Hver man ekki eftir þeirri snilldarhugmynd að banna plaströr í kókómjólkurfernurnar? Til allrar guðslukku getum við nú drukkið þennan þjóðardrykk með papparöri; sem reyndar er pakkað inn í plast. Já og svo eru fernurnar gerðar úr tveimur eða þremur mismunandi efnum sem nær ómögulegt er að endurvinna.

Svo er það lagt á okkur neytendur að flokka þetta samviskulega og keyra í bílförmum í endurvinnslustöðvar sem pressa herlegheitin í gáma til útflutnings. Eins og ég sagði, þá hef ég ekkert á móti því að flokka umbúðirnar sem ég ber inn á heimili mitt. En ég vil betri valkosti um hversu mikið rusl ég ber inn á heimilið. Ég vil geta fengið ýsuflak í dagblaði, skyr í bréfi og kjötfars eftir vigt í mitt eigið ílát.

Stjórnvöld verða að vakna til raunveruleikans, hingað til hafa aðgerðir verið lítið annað en mismunandi umbúðir án innihalds; sem komandi kynslóðir þurfa eflaust að flokka og farga.

Egill P. Egilsson

 


Athugasemdir

Nýjast