Tónamartröð

Ný skipulagslýsing fyrir breytt skipulag Spítalabrekkunnar (Spítalavegur og Tónatröð) fer nú til kynningar meðal bæjarbúa . Hún felur í sér róttækar breytingar frá fyrra aðalskipulagi. Og atburðarásin í Spítalabrekkunni er hröð.

Gagnger stefnubreyting fyrir Innbæinn

Í gildandi aðalskipulagi, samþykktu 2018, er Spítalabrekkan eins og áður innan svæðisins «Innbær» (Fjaran, Lækjargata, Spítalavegur). Í lýsingu svæðisins í aðalskipulagi segir: «Á svæðinu er elsti hluti byggðar á Akureyri. Halda skal yfirbragði svæðisins, og nýbyggingar og breytingar einstakra húsa skulu vera í samræmi við aðliggjandi húsaraðir.»  Þetta er rökrétt. Spítalabrekkan er hluti af Innbænum og sögu hans, ekki nóg með það, hún er afar áberandi hluti af honum og mótar heildarsvip hans mjög.

Í hinni fyrirhuguðu skipulagsbreytingu er slíkt ekki tekið mjög hátíðlega. Spítalabrekkunni er einfaldlega kippt út úr skipulagssvæði Innbæjarins og sett í sérstakan reit þar sem gilda allt aðrar reglur. Það gefur mönnum frjálsari hendur til að breyta stefnunni. Skipulagasbreytingin sveigir sig nefnilega í einu og öllu að einni fram kominni byggingartillögu, tillögu sem brýtur hróplega gegn því «yfirbragði svæðisins» sem gildandi aðalskipulag setti sér að varðveita. Þá brýtur hún freklega gegn hinni merku heilbrigðissögu byggðarinnar í Spíalabrekkunni og ekur henni hreinlega burt á bílhlössum (þ.á.m. einu aldursfriðuðu sóttvarnarhúsi, skiptir sóttvarnarsaga nokkru máli 2021?).

Skipulagsbreytingin varðar meira en skipulag einnar götu. Hún felur í sér gagngera stefnubreytingu: umturnun á byggðinni í Spítalabrekkunni – og þar með grundvallar-stefnubreytingu fyrir Innbæinn sem slíkan og ásýnd gömlu Akureyrar. Hún er jafnframt brotthvarf frá gildandi byggingarlistastefnu Akureyrarbæjar.

Hver á að skipuleggja?

Þá er spurningin: Hvaðan er þessi umturnunarhugmynd komin? Eftir óformlegum leiðum, m.a. frá Sigurði Sigurðarsyni verktaka (Vikudagur 11.mars 2021), fengust þær upplýsingar að formaður skipulagsráðs Akureyrar hefði í nóvember 2020 haft samband við útvalda verktaka og boðið umræddar lóðir undir fjölbýlishús, nokkuð sem var þverbrot gegn gildandi aðalskipulagi. Verktakinn lagði þá strax fram ósk um, og fékk,  úthlutun lóðanna. 

Undanfarið rúmt ár sem liðið er síðan hefur öll «stefnumörkun» skipulagsyfirvalda (og bæjarstjórnar) varðandi þróun byggðar í Spítalabrekkunni falist í þvi að veita hinum útvalda einkaaðila frelsi til að leggja fram og þróa stórkarlalegar hugmyndir sínar um skipulag og byggingar þar, og skrifa síðan upp á þau áform.

Þessi aðferðarfræði felur í sér «útvistun» skipulagsmála í elsta bæjarhluta Akureyrar til einkaaðila. Sjálf hafa skipulagsyfirvöld hins vegar mjög litla sjáanlega stefnu þar um, og virðast naumast líta á það sem sitt hlutverk!

Samráð við íbúa?

Í nýju skipulagslýsingunni er almenningi síðan boðið upp á aðkomu með breytingartillögur og athugasemdir við hið nýja skipulag. Að forminu til er það samráð og lýðræði sem gæti verið til fyrirmyndar. En almenningur fær bara «aðkomu» að þessari einu tillögu um skipulagsbreytingu –  fullmótaðri tillögu og á þeim forsendum sem verktakinn hefur lagt hana fram og útfært  (og lagt í tugmilljónir). Það verður því í þessu samhengi að hafa «samráð» og «lýðræði» innan gæsalappa.

Það eykur ekki trúna á komandi «samráði» að fjölmörgum erindum sem íbúarnir á svæðinu hafa sent skipulags- og bæjaryfirvöldum í ferlinu, undirskriftalista almennings og alls kyns skriflegar athugasemdir þ.m.t. lögfræðiálit í níu liðum, hefur aldrei verið svarað einu orði.

Full ferð áfram áður en gert er hættumat

Veðurstofa Íslands hefur þegar kallað eftir nýju hættumati á skriðuföllum í allri brekkunni ofan Innbæjarins á Akureyri, sérstaklega m.t.t. veðurfarsbreytinga og breytinga á náttúrufarslegum aðstæðum. Fyrirhuguð umsvif við Tónatröð og tilheyrandi skipulagsbreyting stórauka tilefnið til slíks mats.

Fyrirhugað deiliskipulag felur í sér gífurlega aukið byggingarmagn, um 70 íbúðir bætast við í Tónatröð í stað 7 einbýlishúsa skv. gildandi deiliskipulagi. Í sama mæli eykst umferðarmagnið um þröngar æðar Spítala- og Eyrarlandsvegar, að ekki sé talað um alla þungaflutningana á byggingartímanum. Sú leið er ein vinsælasta útsýnisgönguleið í öllum Akureyrarbæ    

Hvað gera bæjaryfirvöld á þessu rannsóknarsviði? Ja, «jarðvegsrannsóknir» eru þegar hafnar, að vísu bara á byggingarhæfi hinna fyrirhuguðu húsgrunna. Rannsóknin er á vegum verktakans, í samvinnu við bæinn segir Sigurður Sigursson aðspurður. Þar er því líka um «útvistun» þess þáttar að ræða. Stenst það einhverja stjórnsýsluskoðun?

Það er mikill hraði í skipulagsbreytingu Spítalabrekkunnar. Umræddur verktaki stefnir beint af augum eins og «úthlutun» lóðanna sé af götu gerð, og leggur í mikinn kostnað í hönnunarvinnu og nú líka í «rannsóknir». Það líkist því að niðurstöður hættumats séu fyrirfram gefnar.

Ekki er að sjá að skipulags- og bæjaryfirvöld hafi forustu í þessum málum, ekki í skipulagsmálum Innbæjarins og ekki í öryggismálum þeirra heldur. Ef hann tekur ekki þá forustu þurfa bæjarbúar að gera það sjálfir.

Höfundur er íbúi við Spítalaveg

Þórarinn Hjartarson


Nýjast