Nýtt upphaf

Birkir Örn Stefánsson.
Birkir Örn Stefánsson.

Í þessum líkama fæðumst við, í þessum líkama lifum við, í þessum líkama deyjum við. Það sem fylgir okkur hins vegar alla tíð á þessari jörðu, í minningu þeirra sem lifa eftir okkar tíð og útheimtir mesta vinnuna frá okkur er persónuleikinn „ég“. Við getum farið í ræktina og púlað, síðar um kvöldið setjumst við fyrir framan sjónvarpið með flögur og nammi, þetta jafnar sig sjálft út. En með persónuleikann þurfum við að fara vel með alla tíð, fjárfesting í ást er góð fyrir þig sem persónu.

Ástin dregur þig ekki niður, svíkur þig ekki eða hneppir þig í hlekki, ástin veitir manni frelsi og gerir þig að þeim manni sem þér var ætlað að vera. Ástfanginn maður með heilbrigða sál er maður sem nánast er ekki hægt að sigrast á. Þannig hefur mér að minnsta kosti liðið enda einstaklega vel giftur maður. Já, ég þarf að koma að hrósi í opinberum skrifum til konu minnar, ég er ekki mikið fyrir það á samfélagsmiðlum. Ykkur sem líkar þessi væmni inngangur getið gefið mér þumalinn næst þegar ég ræðst inn í sjónsvið ykkar.

Fyrir þau ykkar sem lifðu af innganginn langar mig að deila með ykkur smá innsýn í mitt líf. Við skulum kíkja í sjálfsævisöguna og fara beint í 18. kafla sem ber heitið, „Nýtt upphaf“. Hann byrjar um vorið 2019, vorið sem ég missti vinnuna sem ég hafði stundað með stolti í 12 ár og sá ekki fyrir mér að breyting yrði á henni alveg strax. Aðrir höfðu þó aðra skoðun á því og í apríl stóð ég atvinnulaus, iðja sem ég kunni ekki almennileg skil á. En frá fyrsta degi var ákveðið að horfa á þetta sem tækifæri.

Ég þurfti ekki að vinna uppsagnarfrest og fékk því gefins þrjá mánuði ásamt orlofi til að huga að næstu skrefum. Tími sem var vel nýttur, m.a. dyttað að einni trillu, vorverkin tekin óvenju snemma og reyndi bara almennt að hjálpa til þar sem það var hægt. Mikilvægastur var þó allur tíminn sem ég átti aukalega fyrir fjölskylduna. Líklegast hafa fáir verið jafn sáttir við atvinnuleysi mitt og börnin mín. Ég fylgdi þeim í skólann og sótti sömuleiðis eða tók á móti þeim heima. Eitt skiptið þegar dóttir mín kom heim með einar fimm bekkjasystur til að monta sig af því að faðir hennar væri heima og gæti leikið við þær áttaði ég mig á því hvað þessi tími var mikilvægur fyrir hana. Hún gerði sér grein fyrir því að þetta yrði ekki langvarandi en nýtti sér tímann á meðan var.

Einn af mínum kostum kom kannski í ljós í atvinnuleysinu. Ég hafði ekki áhyggjur, æðruleysið og jafnvel vottur af góðu sjálfsáliti sá til þess að ég var fullur tilhlökkunar og viss um að ég myndi fá að takast á við skemmtilegar áskoranir mjög fljótlega.

Ég hafði lengi hugað að því að bæta við mig menntun. Á þeim tíma var ég á góðum stað og fannst óþarfi að rugga nokkuð við því. Þegar hingað var komið var bara að nýta þetta sem hvata í að sækja um á æðra skólastigi. Leitin tók ekki langan tíma og áður en ég vissi hafði umsókn mín verið samþykkt. Það var alls ekki svo slæmt að missa vinnuna á vormánuðum, sumarið allt framundan, ekkert púsl í kringum sumarfrí hjá börnunum, næg útivera og tíminn til að sækja um í háskólum landsins.

Þegar sumarið var að renna sitt skeið var ég svo lánsamur að mér bauðst vinna í múr-bransanum. Þar sá ég mig alveg geta stoppað við í nokkurn tíma. Góðir vinnufélagar og fjölbreytt vinna. Mér var falið að sjá um skrifstofuna ásamt því að klæðast múrgallanum þegar þess þurfti. Þessi blanda átti ágætlega við mig. Ég ber mikla virðingu fyrir hlutverki múrarans eftir þá reynslu, því ég hafði ekki stoppað þar lengi þegar mér bauðst annað atvinnutækifæri sem ég stökk á.

Í 12 ár starfaði ég sem hluti af útibúi, megnið af þeim tíma einn á minni deild, og þakka ég þeim sem ég fékk að umgangast í vinnunni fyrir þann tíma jafnt samstarfsfólki og skemmtilegum kúnnum. Nú starfa ég hjá fyrirtæki sem er norðlenskt í húð og hár. Fólkið sem þar starfar hefur tekið vel á móti mér og ég hef fundið frá fyrsta degi að þarna kann ég vel við mig. Ég er mögulega einfaldur maður, uppáhaldsmaturinn minn er matur sem er eldaður fyrir mig. Því þarf varla að hafa langa orðræðu um hamingju mína í vinnu minni þegar ég geng inn í mötuneytið og ilmur af ný elduðum hádegismat tekur á móti mér, já og hafragrautur á morgnana, þvílík veisla. En það eru líka góðir samstarfsfélagar sem fá mann til að gleðjast ásamt stolti af því að vinna fyrir gott fyrirtæki. Þau box get ég einnig tikkað í.

Allt þetta skilar sér síðan í vellíðan þegar heim er komið. Þó að megnið af tímanum heima fyrir fari í lærdóm, þá er einnig pláss fyrir smá þakklæti. Persónan ég er þakklát fyrir yndislega eiginkonu og börn, umhyggjusama foreldra og stóru systur sínar, vini og ættingja. Ekkert af þessu er sjálfgefið og ég sem persónuleiki hef mótast af þeim sem ég hef umgengist. Því þakka ég öllum þeim sem hafa fylgt mér einhvern part af lífsleiðinni, þið eigið mögulega einhvern þátt í, já eða berið einhverja ábyrgð á því hvaða persónuleika ég hef að geyma í dag.

Verum besta útgáfan af sjálfum okkur. Framkvæmum það sem við tökum okkur fyrir hendur eftir bestu getu. Ef við förum eftir þessu þá höfum við ekkert til að sjá eftir.

Nú er að vona að ég sjái ekki eftir þessum skrifum, nei ég gerði þetta eftir bestu getu. En nú langar mig að skora á Stefaníu Sigurdísi Jóhönnudóttur, jafnréttissinna o.fl. fyrir næsta pistil. Látið ykkur hlakka til og takk fyrir mig í bili.

-Birkir Örn Stefánsson


Nýjast