Lýðheilsa landans – vangaveltur íþrótta- og heilsufræðings til framtíðar

Ísak Már Aðalsteinsson
Ísak Már Aðalsteinsson

Ísak Már Aðalsteinsson skrifar

Í nýliðinni viku birtist grein í Vikublaðinu sem sneri að íþróttaiðkun, stefnumótun og framtíðarsýn Norðurþings í skipulögðu íþróttastarfi. Greinin kemur réttilega inn á mikilvægi skipulagðs íþróttastarfs innan sveitarfélaga og áhrif íþróttastarfs á nærsamfélagið en í lok greinarinnar veltir höfundurinn upp spurningum sem beinast að frambjóðendum. Í lok þessarar greinar vonast ég til að vera búinn að svara þeim frá mínum sjónarhóli sem frambjóðandi fyrir hönd S-listans. 

Hreyfing og líkamsrækt hefur fylgt mannskepnunni frá upphafi. Með auknum lífsgæðum og breyttum lífsháttum hefur hreyfing meðalmannsins þó minnkað og breyst mjög undanfarna áratugi, bæði magn hennar og ástæðan fyrir henni. Með hraðri framþróun síðustu áratugi hefur líkamlega erfiðum störfum fækkað, lífshættir og lífsvenjur breyst og vélar tekið yfir stærstan hluta þeirra verkefna sem áður voru unnin af fólki.

            Í dag stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að þriðjungur fullorðinna einstaklinga á Íslandi hreyfir sig ekki í samræmi við ráðleggingar um lágmarkshreyfingu, sem gefin er út af Landlæknisembættinu. Á sama tíma eykst ákefð hreyfingar þeirra sem kjósa að stunda hvers kyns líkamsrækt í sínum frítíma, en hlutfall þeirra er þó mun minna en þeirra sem hreyfa sig lítið. Hver ástæðan fyrir því er þarf hver að dæma fyrir sig.

Hvort heldur sem er í afreksíþróttamennsku eða hjá áhugafólki eru áhrif hreyfingar ótvíðræð. Bætt líkamleg- heilsa og geta, bætt líðan, betri einbeiting og aukin lífsgæði. Þeir sem stunda hreyfingu af einhverju tagi tengja eflaust við vellíðunartilfinningu eftir góða áreynslu, jafnvel í góðum hópi af fólki þar sem félagslegri þörf er einnig að einhverju leyti fullnægt. Þessi vellíðan vekur hjá okkur jákvætt viðhorf gagnvart hreyfingunni og eykur hjá okkur áhugann á frekari ástundun. 

“Börnin læra það sem fyrir þeim er haft” er máltæki sem á sérlega vel við þegar kemur að hvers kyns íþróttum og hreyfingu í frítíma. Afstaða barna og unglinga til hreyfingar tekur mið af samfélaginu í kringum þau og því mjög mikilvægt að umhverfið sem þau að alast upp í styðji við hvers kyns íþróttastarf og nýti þau tækifæri sem í boði eru til að efla og hvetja unga fólkið okkar til heilbrigðs lífsstíls. Íþróttafélagið Völsungur og ungmennafélögin Austri og Þingeyingur spila þar mikilvægt hlutverk hvað varðar líkamlega-, andlega- og félagslega heilsu barna og unglinga. Börn og unglingar sem stunda íþróttir af hvers kyns tagi standa betur að vígi félagslega í samanburði við aðra jafnaldra, sem eru líklegri til að upplifa félagslegan ójöfnuð. Afleiðing hreyfingar eru einnig aukið sjálfstraust og valdefling, sem er mikilvægur liður í þroskaferli einstaklings. Því ber að fagna þeirri vinnu sem farin er af stað hjá Norðurþingi sem felst í samþættingu skóla, frístunda og tómstunda og leggja verður áherslu á að hún verði kláruð. 

Þegar fjárfesta á til framtíðar er yfirleitt talað um aukinn íbúafjölda, fleiri atvinnutækifæri og aukna þjónustu. Fjárfesting í heilsu og líðan íbúa er verkefni til langs tíma og því miður ekki ofarlega á baugi þegar horft er til að auka þurfi tekjur og lækka skuldir. Því þarf þó að halda til haga að undanfarin ár hefur verið fjárfest í mannvirkjum í sveitarfélaginu eins og gervigrasvelli á Húsavík og uppsetningu á skíðalyftu við Reyðarárhnjúk. Auk þessa hefur verið lagt meira til samstarfsins við Völsung og hækkaðir styrkir sem ætlaðir voru í afreksstarf. Þessar framkvæmdir og aukna samstarf hafa skilað sínu þegar kemur að iðkendafjölda og árangri í knattspyrnu og blaki sem og aukinni hreyfingu og samverustunda fjölskyldna. Á kjörtímabilinu sem er að líða voru frístundastyrkir hækkaðir og viljum við hjá S-listanum hækka þá í 30 þúsund á þessu kjörtímabili og skoða möguleikann á útvíkkun styrksins til að auka möguleika á að hver finni hreyfingu við sitt hæfi. 

Bið eftir fyrsta útborgunardegi heilsubættara samfélags er talinn í árum eða áratugum en skilar sér margfalt til baka til samfélagsins alls, í bættri líkamlegri og andlegri heilsu. Við hjá S-lista viljum aukið stöðugildi fjölmenningarfulltrúa sem fælist í frekari aðstoð og fræðslu til nýrra íbúa sveitarfélagsins um hvers kyns íþrótta- og menningartengda starfsemi í sveitarfélaginu sem einnig myndi stuðla að bættri þátttöku og vitund allra á því sem er í boði. Með því að styðja við og virkja íbúa sem þátttakendur í heilsueflandi samfélagi getum við viðhaldið og aukið framboð íþrótta- útivistar- og annarra menningartengdrar afþreyingar.

Því telur höfundur mjög mikilvægt að kjörnir fulltrúar og aðilar á svæðinu setjist niður eftir kosningar og leggi drög að stefnu í íþrótta- og æskulýðsmálum til framtíðar og komi á tímasettri viðhalds- og uppbyggingaráætlun íþróttamannvirkja í Norðurþingi.

Höfundur er íþrótta- og heilsufræðingur og skipar 4. sæti á S-lista í Norðurþingi


Athugasemdir

Nýjast