Köld kveðja bæjarstjórans

Einar Brynjólfsson.
Einar Brynjólfsson.

Óhætt er að segja að við lifum á áhugaverðum tímum. Veirufárið hefur sett samfélagið úr skorðum svo um munar. Nú ríður á að landsmenn takist á við vandann með samheldni og samhug að leiðarljósi. Til að það megi takast verða stjórnvöld á landsvísu jafnt sem í sveitarfélögunum að ganga á undan með góðu fordæmi, samræmdum aðgerðum og síðast en ekki síst, æðruleysi og jákvæðni.

Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að allt það ágæta fólk sem heldur um taumana hjá Akureyrarbæ muni standa sig í stykkinu. Ég hnaut þó um frekar undarlegt tilskrif Ásthildar Sturludóttur, bæjarstjóra Akureyrarbæjar, til starfsfólks bæjarins sl. föstudagskvöld. Þar segir m.a.:

„Rétt er að benda á að þeir starfsmenn sem hyggjast fara í ferðir erlendis á næstu dögum og eiga í kjölfarið hættu á að fara í sóttkví þegar heim er komið, þurfa að nota sumarfrí eða launalaust leyfi þann tíma sem það þarf að vera í sóttkví.“ [Undirstrikun mín]

Ég geri mér grein fyrir nauðsyn þess að starfsfólk sveitarfélagsins, sérstaklega það sem sinnir veikum og öldruðum, sleppi ónauðsynlegum ferðum til útlanda og finnst það í raun samfélagsleg skylda þeirra sem um ræðir. Það má líka segja að launalaust leyfi eða nýting sumarleyfis við þessar aðstæður sé hjóm eitt í stóra samhenginu en þó finnst mér þessi hótun um hýrudrátt einstaklega ósmekkleg og væntanlega ekki til þess fallin að bæta geð þeirra stétta sem standa í framlínunni, t.d. hjúkrunarfræðinga bæjarins sem hafa verið án samnings í tæpt ár.

Ég vil benda bæjarstjóra á þríhliða samkomulag ríkisstjórnar Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem gert var 5. mars sl. og fylgt var eftir með þar til gerðu lagafrumvarpi sem lagt var fram á Alþingi sl. föstudag en því er m.a. ætlað að tryggja þeim sem eru frá vinnu vegna sóttkvíar, án þess að vera veikir, laun meðan á henni stendur.

Ég treysti því að bæjarstjóri snúi frá villu síns vegar, biðji starfsfólk bæjarins afsökunar á orðum sínum og tryggi öllum þeim sem um ræðir laun meðan á sóttkví stendur, líka þeim sem fara utan. Slík gjörð væri mjög í anda þessa frumvarps, sem verður væntanlega orðið að lögum þegar þessi grein kemur fyrir sjónir lesenda.

-Einar Brynjólfsson. Höfundur er útsvarsgreiðandi og fyrrverandi Alþingismaður


Nýjast