Hvatning til eldra fólks á Akureyri

Hallgrímur Gíslason, formaður Félags eldri borgara á Akureyri
Hallgrímur Gíslason, formaður Félags eldri borgara á Akureyri

Hallgrímur Gíslason skrifar:


Nú þegar styttist í sveitarstjórnarkosningar fara framboðslistar smám saman að líta dagsins ljós. Margt eldra fólk hefur sterk ítök í stjórnmálaflokkum og öðrum framboðum sem hugsanlega bjóða fram krafta sína í kosningunum. Við megum ekki láta tækifærið ganga okkur úr greipum, það er nefnilega fyrir löngu komin röðin að okkur þegar kemur að forgangsröðun fjármála hjá bæjaryfirvöldum. Við þurfum að leita allra leiða til að komast sem efst á sem flesta framboðslista, til að hafa áhrif á stjórnun bæjarins. Það er sama hvort raðað er á lista, farið í prófkjör eða hvaða aðferð er notuð, raddir okkar verða einfaldlega að heyrast. Við viljum helst ekki þurfa að bjóða fram sérstakan lista, en til þess þurfa málefni okkar að skipa drjúgan sess hjá framboðunum.

Á síðasta ári var samþykktur fyrsti áfangi í aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara. Eitt af fyrstu verkum nýrrar bæjarstjórnar er að koma honum í framkvæmd. Einnig þarf að byrja sem fyrst á vinnu við annan áfanga áætlunarinnar.

Árið 2005 flutti Félag eldri borgara starfsemi sína í kjallarann í Bugðusíðu 1. Enn er það í sama húsnæðinu, þótt félögum hafi fjölgað vel yfir 100%. Er hægt að bjóða tæplega 2000 manna félagi upp á 153 fermetra sal fyrir sína öflugu starfsemi? Við skulum athuga að það vantar ekki mikið upp á að fjórðungur bæjarbúa verði 60 ára og eldri. Það fjölgar stöðugt hlutfallslega í þeim aldurshópi og því er mjög áríðandi að þegar í stað verði mynduð framtíðarsýn í þjónustu við hópinn. Við þurfum öll að hjálpast að við að tryggja að fólk geti búið heima sem lengst.

Félagið okkar hefur í gegnum árin lagt mikið að mörkum í félags- og tómstundastarfi eldra fólks hér í bæ auk annarra starfa í þágu íbúa bæjarins 60 ára og eldri. Við skulum líka muna að um 30% íbúa á kjörskrá tilheyra okkar aldurshópi. Sá hópur mætir yfirleitt best á kjörstað og þess vegna er mjög áríðandi að við beitum kröftum okkar þangað sem mestar líkur eru á að hagur okkar verði hafður að leiðarljósi.

Við skulum kynna okkur vandlega stefnu framboðanna í þeim málefnum sem okkur varða.

Við skulum ekki binda okkur við að kjósa það sama og við kusum fyrir fjórum árum eða í síðustu alþingiskosningum, heldur horfa til framtíðar og kjósa það framboð sem við treystum best til að sinna okkar aldurshópi.

Með baráttukveðju.

Hallgrímur Gíslason,

formaður Félags eldri borgara á Akureyri.


Athugasemdir

Nýjast